Jón vill aftur í stjórn N1

Jón Sigurðsson.
Jón Sigurðsson. mbl.is/Rax

Jón Sigurðsson, einn eigenda fjármálafyrirtækisins GAMMA og fyrrum forstjóri FL Group, hefur ákveðið að bjóða sig fram í stjórn eldsneytisfélagsins N1 á nýjan leik. Hluthafafundur félagsins fer fram þann 20. ágúst næstkomandi þar sem stendur til að kjósa einn mann í fimm manna stjórn félagsins. 

Helga Björk Eiríksdóttir gefur einnig kost á sér í stjórnina.

Jón bauð sig fram í stjórn félagsins fyrr á þessu ári - fyrir aðalfund félagsins - en dró framboð sitt hins vegar til baka. Hann sagði ástæðuna vera þá að Kauphöllin hafi tilkynnt félaginu að hún hefði efasemdir um hæfi Jóns til að gegna stjórnarstörfum í skráðu félagi.

Hann segir í yfirlýsingu, sem birtist á vef Kauphallarinnar nú í kvöld, að í framhaldi af því að meira en fimm ár séu liðin frá þeim atvikum sem Kauphöllin vísaði til hafi hann óskað eftir endurskoðun Kauphallarinnar á afstöðu hennar varðandi hæfi sitt.

„Í þeim samskiptum sem ég hef átt við Kauphöllina hef ég undirstrikað að ég ber virðingu fyrir reglum hennar og geri mér fulla grein fyrir að brot á reglum hennar og þeirri löggjöf sem hún byggir á eru alvarlegs eðlis og þá sérstaklega þær reglur sem varða upplýsingaskyldu til markaðarins.

Ég hef skilning á þeim viðurlögum sem Kauphöllin taldi rétt að veita FL Group á sínum tíma og ítreka að ég mun í framtíðarstörfum mínum fyrir skráð fyrirtæki, hvort sem er sem stjórnarmaður eða í öðrum störfum, gæta þess að reglum um upplýsingagjöf verði fylgt í hvívetna með jafnræði fjárfesta að leiðarljósi.

Kauphöllin hefur nú staðfest við mig að hún muni ekki gera athugasemdir við framboð mitt eða setu í stjórn félaga með skráða fjármálagerninga,“ segir hann í yfirlýsingunni.

Frétt mbl.is: Jón dró framboð sitt til baka

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK