Sjá sóknarfæri í Finnlandi

Frá Helsinki, höfuðborg Finnlands.
Frá Helsinki, höfuðborg Finnlands. mbl.is/Eggert

Íslensk fyrirtæki eiga mikil sóknarfæri í jákvæðri ímynd Finna af Íslandi sem landi fegurðar, gæða og hreinleika. Þetta eru niðurstöður kortlagningar á finnska markaðinum sem unnin var á vegum Íslandsstofu og utanríkisráðuneytisins. 

Finnsk-íslenska verslunarráðið hefur í hyggju að stíga fyrstu skrefin að fylgja þessu eftir með því að bjóða upp á bás fyrir íslensk fyrirtæki á stórri matarkaupstefnu í Turku í Finnlandi í októbermánuði.

Niðurstöður kortlagningarinnar voru kynntar fulltrúum íslenskra fyrirtækja á fjölsóttum fundi Íslandsstofu, utanríkisráðuneytisins og Finnsk-íslenska viðskiptaráðsins í gær.

Hjörleifur Þórðarson verkefnisstjóri, sem vann kortlagninguna, kynnti þrjá þætti hennar: könnun á vöru- og þjónustuútflutningi til Finnlands 2004 til 2013 og kannanir á viðhorfum Finna til Íslands og íslenskra afurða. 

Útflutningurinn sveiflukenndur

Hann sagði að á árunum 2004 til 2013 hafi verðmæti vöruútflutnings til Finnlands sveiflast allnokkuð. Verðsveiflur á loðnumjöli réðu þar mestu enda vó það þyngst í útflutningnum í byrjun tímabilsins, á bilinu 30-50%.

Á föstu verðlagi hefur útflutningurinn sveiflast frá upphafi tímabilsins úr tæpum ellefu milljónum evra og niður í um sex milljónir evra á árunum 2008 og 2009. Útflutningsafurðum hefur síðan fjölgað jafnt og þétt og á árinu 2013 var útflutningurinn orðinn sá sami og árið 2004, um ellefu milljónir evra. Mestu munaði um aukinn útflutning á skyri, lýsisvörum og bleikju, að sögn Hjörleifs.

Tölur um sundurliðaðan þjónustuútflutning voru aðeins tiltækar fyrir árin 2009 til 2012. Á þessu tímabili óx þjónustuútflutningurinn hröðum skrefum, úr 25 milljónum evra og upp í 38 milljónir evra. Mestu munaði þar um auknar tekjur af ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan stóð fyrir um 80-90% af þjónustuútflutningnum öll árin, þ.e. frá 2009 til 2012, og hefur þar af leiðandi einnig staðið undir svo til allri aukningunni á tímabilinu.

Fjölmörg tækifæri í útflutningi

Þá gefur könnun, sem framkvæmd var á vegum nokkurra íslenskra fyrirtækja um viðhorf Finna til Íslands og íslenskra vara, til kynna mjög jákvæða ímynd af landi og þjóð. Finnar líta á Ísland sem ímynd fegurðar og gæða, lands heilbrigðs lífsstíls og hreinleika. Var því bent á á fundinum að veruleg tækifæri gætu falist í útflutningi vöru og þjónustu sem endurspeglar þessi atriði, svo sem snyrtivörur, sjávarafurðir, matvæli, lýsi og tískuvörur.

Útflutningur er reyndar þegar hafinn á sumum þessara sviða og fer ört vaxandi, eins og á skyri, lýsisvörum og bleikju. Þá er útflutningur á snyrtivörum og tískuvörum jafnframt að hefjast.

Matarkaupstefna í október

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður Finnsk-íslenska viðskiptaráðsins (FinIce), fjallaði á fundinum um matarkaupstefnu sem haldin verður í Turku í októbermánuði. Þar verður FinIce með bás og býðst íslenskum fyrirtækjum að sýna og selja sínar vörur gegn vægu gjaldi. Hún sagði að það væru tiltölulega fá fyrirtæki sem væru að selja á finnska markaðinum, en hópurinn væri hins vegar mjög þéttur og vel studdur af íslenska sendiráðinu í Helsinki. Auðvelt væri fyrir ný fyrirtæki að slást í hópinn.

Skýrsla um kortlagningu finnska markaðarins

Lýsi flytur meðal annars út vörur til Finnlands.
Lýsi flytur meðal annars út vörur til Finnlands. mbl.is/Golli
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður Finnsk-íslenska viðskiptaráðsins.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður Finnsk-íslenska viðskiptaráðsins. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK