Eiga eftir að venjast töskugjaldi

mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Grunnfargjaldið hjá WOW lækkar ekki í beinu samhengi við ný handfarangursgjöld en fargjöldin fara hins vegar sífellt lækkandi að sögn upplýsingafulltrúa WOW. Hún segir rekstrarmódelið vera sótt til erlendra lággjaldaflugfélaga. „Það er lögð áhersla á að farþegar greiði einungis fyrir þá þjónustu sem þeir kjósa að nota hverju sinni,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW.

Fram hefur komið að WOW hóf um mánaðamótin að rukka sérstaklega fyrir handfarangur sé hann þyngri en fimm kíló. Greiða þarf einnig sérstaklega fyrir innritaðar töskur og var töskugjaldið hækkað í sumar um 14,4% eða úr 3.495 í 3.999 krónur á hverja 20 kílógramma tösku.

Samhliða því að tekið var upp handfarangursgjaldið var hins vegar lækkað verð á innrituðum töskum númer tvö og þrjú um 27% og er nú sama gjaldið fyrir þær allar. Ekki þarf að greiða sérstaklega fyrir fríhafnarpoka 

Ekki er greitt sérstaklega fyrir töskur hjá Icelandair en Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi félagsins, segir þjónustuna vera í sífelldri endurskoðun og þar á meðal farangursreglur. „Engar breytingar hafa verið ákveðnar í þessu sambandi,“ segir hann.

Eiga eftir að venjast

Svanhvít telur það ekki gefa viðskiptavinum ranga mynd af verðinu þó svo að kostnaður bætist síðar við uppgefið verð og bendir á að Íslendingar eigi eftir að venjast fyrirkomulaginu.

„Farþegar hafa ólíkar þarfir og það er sjálfsagt að veita þann möguleika að hver farþegi geti sniðið ferð eftir sínu höfði,“ er haft eftir Skúla Mogensen, forstjóra WOW air í yfirlýsingu fyrirtækisins. Þá segir hann að flugfélagið leggi áherslu á að fólk framvísi öllum farangri við innritum og að það sé búið að kynna sér reglurnar fyrir brottför til að forðast auka kostnað á flugvellinum eða við hlið en töluvert dýrara er þá að greiða fyrir töskurnar.

Eftirlit með handfarangrinum

Fylgst verður með handfarangrinum á þann hátt að við innritun fær fólk miða á töskuna sem síðan þarf að hafa þegar gengið er inn í vélina. Þá verður einnig sama starfsfólkið sem sér um innritun og tekur við farþegum við vélina.

Fyrirkomulagið segir hún vera sótt til erlendra lággjaldaflugfélaga sem ýmist hafa þyngdar- eða stærðar takmarkanir á handfarangri, svo sem EasyJet, Ryanair, Wizz air, Spirit, Allegiant, AirAsia og fleiri lággjaldaflugfélög.

Frétt mbl: Þyngdin skiptir máli

Frétt mbl.is: WOW rukkar fyrir handfarangur

Frá komusalnum í Leifsstöð.
Frá komusalnum í Leifsstöð. mbl.is/Þórður Arnar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK