Vara-Lína bíður á hliðarlínunni

Lína gæti þurft að hvíla röddina um næstu helgi.
Lína gæti þurft að hvíla röddina um næstu helgi. mynd/Grímur Bjarnason

Lína Langsokkur, eða Ágústa Eva Erlendsdóttir, er undir ströngu eftirliti eftir að hafa misst röddina í síðustu viku þannig að aflýsa þurfti þremur sýningum í Borgarleikhúsinu. Varinn er hafður á og er ný vara-Lína nú í þjálfun.

Örfáir vildu fá miðann endurgreiddan og þáðu flestir boð á aukasýningar sem haldnar verða í byrjun nóvember. Búið er að ná í flesta sem áttu miða og eru það helst einhverjir sem búa erlendis sem ekki gátu sótt aðra sýningu. „Við reynum að láta þetta ekki gerast og leikarar stíga oft á svið við ótrúlegustu aðstæður. Í þessu tilfelli var hins vegar ekki möguleiki á að hafa sýninguna þar sem hún var gjörsamlega raddlaus,“ segir Jón Þorgeir Kristjánsson, markaðsstjóri Borgarleikhússins.

Hann segir stöðuna hafa verið óvenjulega erfiða þar sem nánast er fullbókað á hverja sýningu fram í miðjan desember. „Þetta er ótrúleg staða að vera með svo fullar sýningar að við gátum ekki einu sinni fært fólk yfir á næstu helgi, því það voru bara tvo til þrjú sæti laus. Við vorum alveg í sjokki þegar þetta gerðist og það fyrsta sem við hugsuðum var hvernig við ættum eiginlega að koma öllu þessu fólki fyrir,“ segir hann.

Þórunn Arna bíður átekta

Þar sem stutt er liðið frá frumsýningu var ekki búið að finna varamann fyrir Línu Langsokk ef þessi staða skyldi koma upp. „Þetta var ennþá á hættusvæði en núna er unnið hörðum höndum að því að vera með manneskju á hliðarlínunni," segir hann.

Þórunn Arna Kristjánsdóttur, sem meðal annars fór með aðalhlutverkið í leikritinu „Ballið á Bessastöðum“ mun taka það að sér.

Ágústa er nú undir ströngu eftirliti og fer í læknisskoðun á hverjum morgni. Jón Þorgeir segir þó nokkrar líkur á því að hún verði ekki búin að ná sér að fullu fyrir næstu helgi og gæti Þórunn þannig þurft að stíga á svið í hennar stað. Fjórar sýningar eru bókaðar um næstu helgi og segir Jón að engri þeirra verði aflýst. „Það er mikið álag á röddina að taka fjórar sýningar og við þurfum bara að meta hversu mikið er hægt að legggja á hana. Röddin er helsta vinnutæki leikara og það er eins gott að hlúa vel að henni,“ segir hann.

Frétt mbl.is: Sterkasta stelpan raddlaus

Þórunn Arna Kristjánsdóttir mun bíða á hliðarlínunni.
Þórunn Arna Kristjánsdóttir mun bíða á hliðarlínunni. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK