Eftirtektarverður sæstrengur á Íslandi

Sæstrengur milli Íslands og Bretlands telst á meðal 100 eftirtektarverðustu …
Sæstrengur milli Íslands og Bretlands telst á meðal 100 eftirtektarverðustu verkefnum heims að mati KPMG. Rax / Ragnar Axelsson

Raforkustrengurinn milli Íslands og Bretlands er á lista yfir 100 eftirtektarverðustu verkefni heims sviði uppbyggingar innviða. Listinn er gefinn út á tveggja ára fresti á vegum KPMG Global Infrastructure í ritinu „Infrastructure 100“. Er þetta í fyrsta skipti sem íslenskt verkefni kemst á listann.

Verkefnin eru valin með tilliti til nýbreytni og hugmyndaauðgi og eru á mismunandi stigum, allt frá hugmyndastigi eða draumar yfir í að vera komin í fulla framkvæmd. Í tilkynningu KPMG kemur fram að óhætt sé að segja að í þessum verkefnum hafi dómnefndin sem KPMG skipaði séð möguleikann á jákvæðum félagslegum áhrifum og hagvexti.

Í umsögn um verkefnið, sem í skýrslunni er nefnt IceLink, segir að Ísland framleiði alla sína raforku með endurnýjanlegum auðlindum; vatnsafli, jarðvarma og vindi og hafi kost á að framleiða mun meiri orku en þörf er á á almennum markaði.  Fjárfesting í strengnum og orkumannvirkjum á Íslandi gæti orðið að stærðargráðunni 5 milljarðar Bandaríkjadala og strengurinn flutt út 5 terawatt stundir á ári af endurnýjanlegri raforku til Bretlands. Kostnaðurinn við orkuna yrði líklega lægri en kostnaður nýrra vindorkuvera við strendur Bretlands. Tekið er fram að líklega yrði strengurinn sjálfur fjármagnaður af alþjóðlegum fjárfestum en Íslendingar munu sjálfir sjá um fjárfestingar í orkuvinnslu og mannvirkjum innanlands.

Þetta er í fyrsta skipti sem innviðaverkefni á Íslandi er á þessum lista KPMG.  Í ritinu er verkefnið  flokkað með smærri innviðaverkefnum á þróuðum mörkuðum og er lýsingin á þeim flokki að verkefnin séu af viðráðanlegri stærð og eigi að auka samkeppnishæfni samfélagsins. Í þeim flokki má meðal annars finna hraðlestartengingu á milli 3ja stærstu borga Norðurlandanna, gagnaver Facebook í Luleå í Svíþjóð og stækkun á neðanjarðarlestarkerfi Stokkhólms.

Nýta verðmæti sem annars fara forgörðum

„Í tillögum samráðsvettvangs um aukna hagsæld sem komu út árið 2012 kemur fram að núverandi arðsemi af orkuauðlindinni sé ófullnægjandi og brýnasta verkefnið í orkugeiranum væri að auka tekjur greinarinnar með hærri útseldum verðum,“ segir Benedikt K. Magnússon, sviðsstjóri ráðgjafarsviðs KPMG.

Hann segir að sæstrengurinn sé án vafa ein leið til að bæta það. „Bresk stjórnvöld hafa nú þegar gefið út hvaða verð er hægt að fá fyrir græna orku á breska markaðinum og það verður að segjast að þau eru mjög áhugaverð fyrir Ísland, sér í lagi verðin sem þeir eru tilbúnir að borga fyrir orku frá vatnsafli og jarðvarma. Styrktarkerfið í Bretlandi er sett upp fyrir orkuvinnslu þar í landi og því ekki skýrt hvort raforka unninn á Íslandi falli að öllu leyti undir gildandi reglur þar,“ segir Benedikt.

Þá bendir hann á að samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun sé þegar til í kerfinu umframorka sem nemur um 40% af þeirri raforku sem strengurinn kæmi til með að flytja út.  „Hér fara því verðmæti forgörðum sem líklega væri hægt að nýta til að bæta lífskjör á Íslandi. Það er því tímabært að skoðun á þessu verkefni sé tekin á næsta stig, samhliða því að auka þjóðfélagsumræðu um kosti og galla þessa verkefnis fyrir íslenskt samfélag,“ segir Benedikt.

Í umsögninni segir að Íslendingar framleiði alla sína orku með …
Í umsögninni segir að Íslendingar framleiði alla sína orku með endurnýjanlegum hætti. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK