Ísland fer upp um sjö sæti

Virði vörumerkisins Íslands vex.
Virði vörumerkisins Íslands vex. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ísland færði sig upp um sjö sæti og situr í því fimmtánda á árlegum lista fyrirtækisins FutureBrand yfir þau lönd sem þykja verðmætustu vörumerkin. Við gerð listans eru löndin metin á sama hátt og fyrirtæki og lagt er mat á viðhorf manna til þeirra. 75 lönd voru í úrtakinu. 

Í fyrsta sæti listans er Japan, Sviss er í öðru, Þýskaland í því þriðja, Svíþjóð er í fjórða og Kanada er í því fimmta. Í skýrslunni segir að Japan sé á hraðri braut framþróunar en tækni, matargerð og menning eru helst talin einkenna þjóðina. Er þetta í fyrsta skipti sem Japan situr í efsta sæti. Rúmlega 65 prósent viðmælenda sögðust geta hugsað sér að heimsækja landið á næstu fimm árum og um níutíu prósent myndu mæla með því við fjölskyldu og vini. Þá töldu níu af hverjum tíu að gott væri að stunda viðskipti í Japan.

Nígería í neðsta sæti

Í öftustu fimm sætunum eru Nígería í því sjötugasta og fimmta, Úkraína þar á undan, Pakistan í því sjötugasta og þriðja, Bangladess í sjötugasta og öðru og Íran þar á undan.

Nefnd eru fimm lönd sem talið er að vert sé að fylgjast með í framtíðinni en þau eru Kína, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Suður-Kórea, Ísrael og Katar. Er þetta byggt á því að viðmælendur töldu líklegt að einhver framþróun yrði í fyrrnefndum löndum innan næstu þriggja ára.

Áhrifamikil borg tryggir ekki sterka ímynd

Þegar rannsóknin er gerð er kannað hvaða mælivíddir það eru sem móta viðhorf fólks þegar kemur að innkaupum á vörum og þjónustu, hvert fólk velur að ferðast, hvar það menntar sig og hvar fyrirtæki eru stofnsett. FutureBrand hefur einnig rannsakað hvernig tengingar við einstök lönd hafa áhrif á kauphegðun og fjallar nýleg skýrsla þeirra „Made in …“ um vaxandi mikilvægi uppruna afurða fyrir neytendur.

Helstu áhrifaþættir á útkomuna eru í fyrsta lagi að vitund jafngildir ekki sterkri ímynd landa, í öðru lagi tengist styrkur ímyndar lands fjölda vörumerkja frá landinu, í þriðja lagi vex styrkur ímyndar landa ef þekkt vörumerki finnast í mörgum geirum, í fjórða lagi eru það tækni, nýsköpun og sjálfbærni sem leggja mest til virðis ímyndar og í fimmta lagi tryggir áhrifamikil borg ekki sjálfkrafa sterka ímynd sem land en New York, London og Peking eru áhrifamestu borgirnar.

Frá Tókýó, höfuðborg Japans. Japan er í efsta sætiþ
Frá Tókýó, höfuðborg Japans. Japan er í efsta sætiþ AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK