HS Orka kaupir hlut í Vesturverki

HS Orka og Vesturverk
HS Orka og Vesturverk Mynd/HS Orka

HS Orka hefur keypt hlut í orkufyrirtækinu Vesturverki sem vinnur að virkjun Hvalár í Ófeigsfirði á Ströndum. Með samningnum gerist HS Orka meirihlutaeigandi í Vesturverki. Samningurinn gerir Vesturverki kleift að vinna áfram að rannsóknum og þróun virkjunarinnar í Hvalá.

Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki rammaáætlunar ríkisstjórnarinnar um nýtingu orkuauðlinda Íslands sem og á aðalskipulagi Árneshrepps. Áætluð stærð Hvalárvirkjunar er um 50 MW og orkugeta upp á 320 GWh á ári.

Með tengingu til Ísafjarðar er Hvalárvirkjun talin sá virkjunarkostur á Vestfjörðum sem tryggir orkuöryggi Vestfirðinga hvað best. „Samningurinn við HS Orku gerir okkur kleift að halda áfram rannsóknum og þróun Hvalárvirkjunar. Virkjunin mun hafa víðtæk og verulega jákvæð áhrif á atvinnulíf á Vestfjörðum,“ er haft eftir Gunnari Gauki Magnússyni, framkvæmdastjóra Vesturverks, í tilkynningu.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, tekur í sama streng. „Orkuöryggi á Vestfjörðum hefur verið eitt helsta baráttumál íbúa þar um langt skeið enda hafa orkumál staðið atvinnulífinu fyrir þrifum. Við hjá HS Orku þekkjum það af eigin reynslu frá Suðurnesjum hvað orkuöryggi skiptir miklu máli og við finnum fyrir miklum stuðningi íbúa og sveitarfélaga á Vestfjörðum varðandi framgang verkefnisins,“ er haft eftir honum.

HS Orka er rótgróið orkufyrirtæki og fagnar 40 ára afmæli á næstunni. Fyrirtækið á og rekur tvær jarðvarmavirkjanir; á Reykjanesi og í Svartsengi. Orkuverin þar hafa leitt af sér aðra fjölþætta starfsemi og nýsköpun; svo sem Bláa lónið, snyrtivöruframleiðslu, fiskeldi og svo mætti lengi telja.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK