Míla braut gegn jafnræðiskvöð

Míla
Míla

Póst og fjarskiptastofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að Míla hafi brotið gegn þeirri jafnræðiskvöð sem hvílir á félaginu með því að veita Snerpu ekki nauðsynlegar upplýsingar eða leiðbeiningar í tengslum við VDSL væðingu beggja fyrirtækjanna í Holtahverfi á Ísafirði.

Með ákvörðuninni er leyst úr ágreiningi Snerpu ehf. og Mílu ehf. vegna VDSL væðingar félaganna í Holtahverfi á Ísafirði. VDSL kerfi Mílu er nefnt Ljósnet en VDSL kerfi Snerpu nefnist Smartnet. Sá tæknilegi munur er á VDSL þjónustu og hefðbundinni ADSL þjónustu að virki búnaðurinn er almennt staðsettur í símstöðvum í tilfelli ADSL tenginga en í götuskápum í tilviki VDSL tenginga. Þar sem virki búnaðurinn er mun nær endanotandanum í tilviki VDSL eru þær tengingar mun öflugri og afkastameiri en hinar hefðbundnu ADSL tengingar.

Míla á og rekur grunnet fjarskipta um allt land, þ.m.t. heimtauganet, þ.e. þær lagnir sem liggja úr símstöðvum um götuskápa og inn í heimili og fyrirtæki.
Fyrirtækið er með umtalsverðan markaðsstyrk á þessu sviði og því hvílir sú kvöð á því að veita öðrum fjarskiptafyrirtækjum aðgang að heimtauganeti sínu, svo fremi að slík beiðni sé sanngjörn og eðlileg. Mílu ber í hverju tilfelli að gæta jafnræðis milli þeirra fyrirtækja sem byggja rekstur sinn á heimtauganeti Mílu og eigin deilda sem veita samskonar þjónustu.

Snerpa hefur rekið ADSL þjónustu á Ísafirði um margra ára skeið og hefur á síðustu misserum verið að uppfæra kerfi sitt í VDSL. Þetta kallar á breytingar á aðgangi Snerpu að heimtaugakerfi Mílu. Í stað þess að hafa aðgang að símstöðvum fyrir búnað sinn þarf Snerpa að komast í götuskápa til að VDSL þjónustan verði virk.

Í ákvörðun sinni kemst PFS að þeirri niðurstöðu að Míla hafi brotið gegn þeirri jafnræðiskvöð sem hvílir á félaginu með því að veita Snerpu ekki nauðsynlegar upplýsingar eða leiðbeiningar í tengslum við VDSL væðingu beggja fyrirtækjanna í Holtahverfi á Ísafirði. Einnig telur stofnunin að Míla hafi ekki haft eðlilegt samráð við Snerpu um umrædda kerfisuppbyggingu, né tekið hæfilegt tillit til hagsmuna Snerpu sem samkeppnisaðila sem þegar var með þjónustu í rekstri í Holtahverfi.

Í ákvörðuninni er einnig leyst úr ágreiningi fyrirtækjanna um aðgang Snerpu að einstökum götuskápum Mílu í hverfinu. Niðurstaða PFS er að þar sem Snerpa fær ekki beinan aðgang að tilteknum götuskáp þarf Míla að veita Snerpu fullnægjandi lausn sem gerir Snerpu eins setta og ef aðgangur að götuskáp hefði verið veittur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK