Kópavogur undirbýr þrjú ný hverfi fyrir 40 milljarða

Horft til suðurs yfir fyrirhugað byggingarsvæði í Glaðheimum – reit …
Horft til suðurs yfir fyrirhugað byggingarsvæði í Glaðheimum – reit 2. Teikning/Skipulags- og byggingardeild Kópavogs

Á næstu árum koma á markað tæplega 1.200 nýjar íbúðir á þéttingarsvæðum í Kópavogi.

Miðað við að söluverð á fermetra sé 360 þúsund og íbúðirnar að meðaltali 90 fermetrar er samanlagt söluverð þessara íbúða um 40 milljarðar. Það er líklega varlega áætlað.

Svæðin eru Glaðheimar, Auðbrekka og Smárabyggð, að því er fram kemur í umfjöllun um byggingaráform þessi í ViðskiptaMogganum í dag.

Byggingarréttur á Glaðheimasvæðinu, nánar tiltekið austurhluta – reit 2, verður formlega auglýstur í dag. Þar er gert ráð fyrir um 260 íbúðum í fjölbýli. Áætlað heildarflatarmál þeirra er að meðaltali 126 m2.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, segir áætlað að 2,5 einstaklingar búi að meðaltali á reit 2 í nýja Glaðheimahverfinu, eða um 650 manns. Hann segir hverfið munu henta barnafólki. 

Setur þrýsting á markaðinn

Spurður hvernig hann meti eftirspurnina eftir nýjum íbúðum bendir Ármann á að talið sé að 1.500-1.800 nýjar íbúðir þurfi á höfuðborgarsvæðinu ár hvert til að mæta íbúafjölgun. Þá hafi skapast uppsöfnuð þörf fyrir íbúðir á höfuðborgarsvæðinu vegna þess hversu lítið hafi verið byggt á síðustu árum.

„Það er mikilvægt fyrir okkur að þessi hluti í Glaðheimum rísi allur á sama tíma í ljósi þess hvers eðlis hverfið er. Þessar einingar þurfa að rísa nánast allar í einu á rúmum tveimur árum og það getur sett svolítinn þrýsting á markaðinn, þ.e. með því að koma með mikið framboð af íbúðum í einu. Svo eru önnur ný hverfi í Kópavogi sem mega taka lengri tíma,“ segir Ármann og bendir á að uppbygging Auðbrekkuhverfisins verði t.d. ekki jafnhröð.

Birgir Hlynur Sigurðsson, skipulagsstjóri Kópavogs, segir hverfið Glaðheima – austurhluta – reit 2 eitt af þéttingarsvæðum Kópavogs. Þar verða um 200 íbúar í fjölbýli á hvern hektara þegar svæðið verður fullbyggt, sem er þéttbýlla en almennt gerist í Kópavogi. Þá verða 1,7 bílastæði á íbúð í hverfinu og er það undir meðaltalinu í úthverfum Kópavogs sem er tvö stæði á íbúð. 

Skipulagt sem randbyggð

Bílakjallarar verða undir flestum húsum. Hverfið verður skipulagt sem randbyggð og verða inngarðar milli húsanna. Hæð húsa í hverfinu verður 4-6 hæðir og munu húsin því ekki skyggja á garðana. Tvö húsanna á svæðinu verða 10 hæðir.

Birgir Hlynur segir áformað að lóðir í hverfinu verði orðnar byggingarhæfar í júlí og að uppbyggingin taki tvö til fjögur ár. „Sérstæða þessa hverfis er hversu miðlægt það er í Kópavogi og hversu vel það er í sveit sett varðandi svæðiskjarna, sem er fyrir allt höfuðborgarsvæðið,“ segir Birgir Hlynur og tekur fram að lögð sé rík áhersla á góða hönnun.

Á reit 2 eru nú tvær byggingar sem verða rifnar, annars vegar þjónustumiðstöð Kópavogs og hins vegar gamla reiðskemman sem var á Gustssvæðinu. Reiðskemman verður rifin á næstunni en niðurrif þjónustumiðstöðvarinnar er ótímasett.

Ekki markaður fyrir skrifstofur og verslunarhúsnæði

Birgir Hlynur segir að næst verði hugað að endurskoðun deiliskipulags á reit 1, vestan við reit 2 og nær Reykjanesbraut. Á reit 1 eru hugmyndir um að reisa 32 hæða skrifstofuturn. Að öðru leyti verða húsin á reitum 1-3 tvær til sex hæðir.

„Á reit 1 sjáum við fyrir okkur blandaða byggð íbúða og þjónustu en þó meira af þjónustu en íbúðum. Reitur 3 er þar fyrir sunnan, í átt að Garðabæ, meðfram Reykjanesbraut. Þar yrðu skrifstofur, verslun og þjónusta. Uppbygging á reit 3 mun hefjast síðar en á reit 1 og 2 og helgast það af því að það er gert ráð fyrir verslun og þjónustu, skrifstofum og svo framvegis, á þeim reit. Það er ekki markaður fyrir það í augnablikinu,“ segir Birgir Hlynur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK