Tvöfalt siðgæði skattyfirvalda

Bjarni Benediktsson og Bryndís Krisjánsdóttir.
Bjarni Benediktsson og Bryndís Krisjánsdóttir. Samsett mynd

Ljóst er að gögn um meint skattaundanskot Íslendinga verða keypt fyrir 150 milljónir króna ef skattarannsóknarstjóri biður um. Eftir skoðun á sýnishorni telur skattrannsóknarstjóri að þau gætu nýst embættinu. Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri, segir málið vera í þessum farvegi en ekki liggur fyrir hvenær samningur um kaupin verður gerður.

Fjármálaráðherra hefur sagt að ekki sé um hefðbundnar bankaupplýsingar að ræða en ekki liggur fyrir í hvaða formi þær eru.

Aðspurður sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra að skattrannsóknarstjóri væri að glöggva á sig á því hvort gögnin væru nothæf eða hvort þeirra hefði mögulega verið aflað með ólögmætum hætti. Í samtali við mbl segist Bryndís ekki hafa áhyggjur af áreiðanleika gagnanna en bendir á að eðli máls samkvæmt séu þetta gögn sem ekki væri hægt að komast yfir með hefðbundnari leiðum. Það þurfi þó ekki að þýða að gögnin séu stolin en það sé bæði siðferðileg og pólitísk spurning hvort nota eigi þess konar gögn.

Sami aðili með gögn í Danmörku

Fram hefur komið að alls sé um 416 mál að ræða og rukkar seljandinn um 2.500 evrur fyrir hvert þeirra, eða um 375 þúsund krónur. Bryndís segir að öðrum ríkjum hafi áður verið boðin sambærileg gögn frá sama aðila en vill þó ekki segja hvaða ríki né heldur hvort þau hafi keypt gögnin.

Finna má fordæmi fyrir sams konar kaupum á gögnum um skattaundanskot frá aðilum sem mögulega hafa nálgast þau með ólögmætum hætti í öðrum löndum, líkt og í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Hollandi. Aðferðin hefur reynst vel í Þýskalandi þar sem slík viðskipti hafa nokkrum sinnum átt sér stað og hefur umtalsverðum fjármunum verið skilað í ríkiskassann.

Gátu ekki varist

Í Hollandi var á árinu 2009 keyptur listi með um 300 nöfnum meintra skattsvikara með reikninga í skjólum í Sviss og á Cayman eyjum en borgað var fyrir hann með árangurstengingu af endurheimtum skattgreiðslnanna.

Í síðustu féll dómur í máli er snerist um álagninguna og taldi dómstóll á lægra dómstigi í Arnheim í Hollandi hana vera ólögmæta þar sem skattyfirvöld neituðu að gefa upp heimildarmann sinn. Taldi dómari þetta brjóta gegn rétti meintu skattsvikaranna til réttlátrar málsmeðferðar þar sem erfitt er að taka til varna þegar það liggur ekki fyrir hver beri á þá sakir. Skattyfirvöld í Hollandi hafa þó sagst ætla að áfrýja niðurstöðunni.

Gæti verið sama niðurstaða á Íslandi

Réttur manna til réttlátrar málsmeðferðar fyrir íslenskum dómstólum er bæði varinn í stjórnarskrá Íslands og Mannréttindasáttmála Evrópu. Kristján Gunnar Valdimarsson, lektor í innlendum og alþjóðlegum skattarétti við Háskóla Íslands og lögmaður hjá CATO, bendir á að túlkun á mannréttindasáttmálanum eigi að vera samrýmd á Íslandi og í Hollandi og telur það ekki ólíklegt að íslenskir dómstólar gætu komist að sömu niðurstöðu.

Bernhard Bogason, lögmaður hjá Nordik og sérfræðingur í skattarétti, tekur í sama streng og segir það skipta máli hvers eðlis gögnin eru, hvort um sé að ræða hefðbundnar upplýsingar um bankareikninga eða eitthvað annað. „Ef málið er byggt á nafnlausum gögnum sem ekki er hægt að staðfesta fyrir dómi gæti það bæði haft áhrif á sönnunarmat og möguleikann til þess að verjast,“ segir Bernhard.

Dómstólar myndu skoða gögnin

Kristján Gunnar bendir á að sönnunarmat sé frjálst á Íslandi og því gætu dómstólar horft til gagnanna þótt ljóst væri að þeirra hefði verið aflað með ólögmætum hætti. Annað mál væri hins vegar hvers eðlis gögnin væru og hvort þau teldust sem slík vera sönnunargögn. Bernhard tekur einnig undir það og bendir jafnframt á að sönnunargögnum hafi hingað til ekki verið haldið frá af þeirri ástæðu.

Tvíbent spurning

Kristján segist þá telja það óforsvaranlegt að íslensk skattyfirvöld hyggist greiða með reiðufé, svart, til manns sem þau vita að muni sjálfur ekki gefa greiðsluna upp til skatts. „Skattyfirvöld geta ekki verið að berjast gegn svartri atvinnustarfsemi og svo ætlað að borga einhverjum manni svart fyrir þjófstolin gögn í þeirri von um að hægt sé að nota þau,“ segir Kristján.

Um þetta segir Bryndís það vera tvíbenta spurningu hvort verið sé að ýta undir glæpi og hugsanlega launa glæpamönnum eða hvort skattyfirvöld eigi að leita allra leiða við að upplýsa skattsvik.

Kristján telur nýtingu upplýsingaskiptasamninga vera betri farveg fyrir skattrannsóknir þótt listinn gæti vissulega nýst sem tilefni til þess að hefja lögmæta rannsókn. Bryndís segir nauðsynlegt að hafa grunninn til staðar þar sem ekki sé hægt að senda almennar fyrirspurnir til lágskattaríkjanna. Aðspurð hvort til standi að nýta listann sem grunn fyrir þess konar rannsókn segir hún að hann gæti vissulega komið embættinu af stað og gefið vísbendingar þar um.

Skattrannsóknarstjóri
Skattrannsóknarstjóri Sverrir Vilhelmsson
Kristján Gunnar Valdimarsson
Kristján Gunnar Valdimarsson
Fjármálaráðherra mun beita sér fyrir kaupum á gögunum.
Fjármálaráðherra mun beita sér fyrir kaupum á gögunum. Þorkell Þorkelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK