Eik óskar eftir skráningu á markað

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar.
Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar. Ómar Óskarsson

Eik fasteignafélag hefur birt uppgjör sitt og hagnaðist félagið um 1,3 milljarða króna á árinu 2014. Þá hefur stjórn félagsins tekið ákvörðun um að óska eftir skráningu í Kauphöllina í kjölfar almenns útboðs sem gert er ráð fyrir að fari fram fyrir lok aprílmánaðar. 

Í afkomutilkynningu Eikar kemur fram að hagnaður félagsins jókst um 8 prósent milli ára og jukust rekstrartekjur félagsins um 95 prósent og námu tæpum fjórum milljörðum króna en þar af voru leigutekjur um 3,7 milljarðar króna. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir matsbreytingu og afskriftir nam tæpum 2,9 milljörðum króna sem er 107% aukning frá árinu áður. Á árinu var gengið frá kaupum félagsins á fasteignafélögunum EF1 hf. og Landfestum ehf. og er bent á að taka beri tillit til þess í samanburði milli ára. Með kaupunum stækkaði fasteignasafn Eikar fasteignafélags um 161.000 fermetrar.

Vilja greiða 580 milljón króna arð

Stjórn Eikar fasteignafélags hefur tekið ákvörðun um að óska eftir skráningu hlutabréfa félagsins á Aðalmarkað Nasdaq Iceland og hefur fyrirtækjaráðgjöf Arion banka umsjón með söluferli og undirbúningi að skráningunni. Almenningi og stærri fjárfestum verður boðið að kaupa hlutabréf í félaginu í almennu útboði í aðdraganda skráningar sem gert er ráð fyrir að fari fram fyrir lok aprílmánaðar.

Félagið hefur þá sett sér arðgreiðslustefnu um að greiða árlega út arð sem nemur 35% af handbæru fé frá rekstri hvers árs. Í samræmi við stefnuna mun stjórn félagsins leggja til við aðalfund, sem haldinn verður 21. maí næstkomandi, að greiddur verði út 580 milljón króna arður til hluthafa á árinu 2015 vegna rekstrarársins 2014. Handbært fé frá rekstri á árinu 2014 nam 1,6 milljarði króna og nam handbært fé í árslok 3,7 milljörðum.

Arðsemi eigin fjár nam 11% á árinu 2014, að teknu tilliti til hlutafjáraukninga. Í lok ársins nam eigið fé Eikar fasteignafélags 19,5 milljörðum króna og var eiginfjárhlutfallið 29,5%. Vaxtaberandi skuldir félagsins námu á sama tíma 43,6 milljörðum króna.

Rétti tíminn fyrir næsta skref

Haft er eftir Garðari Hannesi Friðjónssyni, forstjóra Eikar, í tilkynningunni að afkoman síðasta árs sé mjög jákvæð og uppgjörið sterkt. „Félagið hefur vaxið mikið undanfarin ár, reksturinn er góður og Eik fasteignafélag á nú gott safn fasteigna sem er arðsamt og vel staðsett fyrir leigutaka. Við teljum þetta því rétta tímann til að taka næsta skref með félagið og hefur stjórn félagsins tekið ákvörðun um að óska eftir skráningu í Kauphöllina,“ er haft eftir Garðari.

Eik fasteignafélag sinnir rekstri og útleigu á atvinnuhúsnæði. Félagið á yfir hundrað fasteignir og telja þær samtals um 273 þúsund fermetra. Virði fjárfestingareigna félagsins er um 62 milljarðar króna og heildarfjöldi leigutaka yfir 400. Helstu eignir Eikar fasteignafélags eru Borgartún 21 og 26, Nýi Glæsibær, Turninn í Kópavogi, Smáratorg og Austurstræti 5,6,7 og 17. Stærstu leigutakar eru Fasteignir ríkissjóðs, Húsasmiðjan, Landsbankinn, Rúmfatalagerinn, Skipti, Deloitte, og VÍS.

Eik stefnir á almennt útboð í lok aprílmánaðar.
Eik stefnir á almennt útboð í lok aprílmánaðar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK