Stóraukinn hagnaður Félagsbústaða

Þjónustuíbúðirnar við Þórðarsveig
Þjónustuíbúðirnar við Þórðarsveig Árni Sæberg

Hagnaður Félagsbústaða jókst umtalsvert frá fyrra ári og nam 4,7 milljörðum króna á árinu 2014 samanborið við 1,6 milljarða árið 2013.

Rekstrarhagnaður fyrir vaxtagjöld, verðbætur lána og matsbreytingu fjárfestingaeigna jókst um 5,2% milli ára, úr 1,4 milljörðum árið 2013 í 1,5 milljarða árið 2014. Tekjur félagsins námu um þremur milljörðum króna, sem er 4,1 prósent aukning milli ára, en í afkomutilkynningu félagsins kemur fram að það sé aðallega vegna verðlagshækkunar leigu og stækkunar eignasafnsins.

Keyptu 25 íbúðir og seldu 5

Félagsbústaðir hf, sem eru hlutafélag í eigu Reykjavíkurborgar, eiga og reka félagslegt leiguhúsnæði sem úthlutað er af Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Markmið félagsins er að starfa í þágu almannaheilla og skal rekstur þess vera sjálfbær. Félagið á og rekur 1.817 almennar leiguíbúðir auk 307 þjónustuíbúða fyrir aldraða ásamt 118 litlum íbúðum í sambýlum fyrir fatlað fólk, eða samtals 2.242 íbúðir í Reykjavík. Á árinu 2014 keypti félagið 25 íbúðir og seldi 5 íbúðir.

Rekstrargjöld félagsins hækkuðu um 2,9 prósent milli ára og námu um 1,5 milljarði króna. Af einstökum rekstrarþáttum hækkaði rekstrarkostnaður fasteigna um 12,3% og launakostnaður um 9,9%. Gjaldfært viðhald fasteigna nam um 1,27% af verðmati þeirra í árslok.

Heildareignir Félagsbústaða í árslok 2014 námu ríflega 47 milljörðum króna og jukust um 5,2 milljarða á árinu, eða um 12,3%, aðallega vegna matsbreytingar fjárfestingaeigna félagsins.

Handbært fé frá rekstri nam 571 milljónum króna á árinu 2014 sem er um 127 milljónum meira en árið á undan. Fjárfestingar á árinu 2014 námu 711 milljónum króna miða við 274 milljónir árið áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK