Íslendingar þekkja nauðsynina best

Bjarni Benediktsson á Hilton í dag.
Bjarni Benediktsson á Hilton í dag. mbl.is/Styrmir Kári

Þegar verið að er að gera jafn viða miklar breytingar er manni hætt við að missa sjónar á aðalatriðunum. Umræðan fer að snúast um hin smærri atriði. Þetta verðum við að forðast og vera meðvituð um að sífellt flóknara regluverk mun ekki gera okkur að fullu hólpin frá óstöðugleika á fjármálamörkuðum nema að reglurnar verði svo íþyngjandi að fjármálakerfið geti ekki stutt við vöxt hagkerfisins.

Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á ráðstefnu sem haldin var á vegum Fjármálaeftirlitsins í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið, á Hilton í dag. Yfirskrift ráðstefnunnar er „Hvers vegna fjármálaeftirlit?“ og benti Bjarni á að Íslendingar þekktu líklega manna best mikilvægi þess.

Stærsta þrotið í minnsta hagkerfinu

„Fjármálalegur óstöðugleiki hefur lengi einkennt íslenskt efnahagslíf og við erum enn að fást við afleiðingar fjármálahrunsins. Hrunið er eitt stærsta fjármálaáfall sem nokkurt hagkerfi hefur þurft að fást við en samanlagt greiðsluþrot stóru bankanna þriggja er meðal stærstu gjaldþrota veraldarsögunnar og átti það sér stað innan eins minnsta hagkerfisins,“ sagði Bjarni. Hann sagði skýra lagalega umgjörð fjármálakerfisins og skilvirkt fjármálaeftirlit vera samfélagsleg gæði þar sem þær stofnanir sem eftirlitið nær til sýsla með eignir almennings og fyrirtækja í landinu. Þær geyma launin á innlánsreikningum, sparnaðinn í lífeyrissjóðum og verðbréfum og fjármagna stærstu fjárfestingar Íslendinga. „Íslendingar eiga sér mikið undir því að þessar stofnanir séu stöndugar og rekstur þeirra stöðugur.“

Til þess að eftirlitið standi ekki höllum fæti gagnvart fjármálafyrirtækjum sagði Bjarni mikilvægt að veittar upplýsingar væru skýrar og réttar. „Fyrirtækin eiga ekki að geta misnotað sérþekkingu sína og stærð til þess að hagnast óeðlilega á viðskipum.“

Þá sagði hann niðurstöður nýlegrar skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um bankaeftirlit á Íslandi sýna að betur megi ef duga skal en benti jafnframt á að hækkun eftirlitsgjalds á liðnum árum hefði skilað auknum styrk og vexti hjá eftirlitinu.

Nýtt viðvarandi eftirlit

Bjarni ræddi þá um fjölmargar fyrirhugaðar lagabreytingar er snúa að fjármálaeftirliti en meðal þeirra er frumvarp til breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt því mun svokallað fjármálastöðugleikaráð, sem komið var á fót í fyrra, sjá um að beina tilmælum um beitingu eiginfjárauka til FME. Þá eru fleiri slík þjóðhagsvarúðartæki eru til skoðunar, bæði hvað varðar lán í erlendri mynt og fasteignalán. Í frumvarpinu er einnig að finna ákvæði sem tryggja á að nýju viðvarandi eftirliti með eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum verði komið á fót auk þess sem komið verður til móts við nokkrar athugasemdir sem AGS gerði við úttekt á eftirlitinu.

Síðar á þessu ári er þá stefnt að því að ljúka við smíði frumvarps sem mun að fullu innleiða evrópskar bankareglur í íslenskan rétt. Bjarni telur að í kjölfarið verði þá sniðugast að hefjast handa við heildarendurskoðun á lögum um fjármálafyrirtæki í ljósi þeirra miklu breytingar sem þá hafa verið gerðar á lögunum á undanförnum árum.

Skylda til samstarfs

Í haust hyggst Bjarni þá leggja fram frumvarp um skila- og slitameðferð fjármálafyrirtækja. Frumvarpið mun byggja á tilskipun Evrópusambandsins og miða að því að festa í lög til frambúðar ítarlegri ákvæði um hvernig taka eigi á fjármálafyrirtækjum sem standa höllum fæti en slík ákvæði birtust fyrst í íslenskum rétti í neyðarlögum.

„Í frumvarpinu er af mörgu er að taka en ég læt nægja að geta um lágmarkskröfur um eigið fé og skuldbindingar sem heimilt er að breyta í eigið fé,“ sagði Bjarni er hann ræddi um frumvarpið.

Samhliða því hyggst Bjarni leggja fram frumvarp um innistæðukerfið en það mun einnig byggja á tilskipun ESB. Þar verður m.a. kveðið á um sérstaka skyldu innistæðutryggingakerfisins og skilameðferðar til virks samstarfs ef fjármálafyrirtæki lenda í alvarlegum erfiðleikum. Bjarni nefndi að ákvæðið væri sérstaklega mikilvægt hér á landi þar sem stærðardreifing innlánsstofnana er mismunandi.

Aðild að evrópskum eftirlitsstofnunum

Í frumvarpinu verður þá einnig að finna útfærslu á samkomulaginu sem náðist við ESB í haust um hvernig taka megi nýja evrópska umgjörð fjármálaeftirlits inn í EES samninginn. Samkvæmt því munu FME og fjármálaeftirlit hinna EES ríkjanna fá fulla aðild að evrópskum fjármálaeftirlitsstofnunum án atkvæðisréttar. Hins vegar geta þær ekki tekið bindandi ákvarðanir í íslenskum málum heldur verður það vald fært til eftirlitsstofnunar EFTA. 

„Það er sameiginlegt hagsmunamál okkar allra að eiga virkt fjármalaeftirlit með stöndugum fjármálafyrirtækjum. Ekki verður fram hjá því litið að umsvifamikil fyrirtæki á þessu sviði geta haft verulega neikvæð áhrif á hagkerfið allt ef illa fer. Því verður að gera kröfur um nægt eigið fé og skuldbindingar sem nýtast við að takmarka eða eyða að fullu þeirri áhættu sem almenningur ber við fall þeirra,“ sagði Bjarni Benediktsson.

Fjölmennt var á fundi Fjármálaeftirlitsins í dag.
Fjölmennt var á fundi Fjármálaeftirlitsins í dag. mbl.is/Styrmir Kári
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri og Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, …
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri og Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, á fundinum í dag. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK