Auðveldi yfirtöku Arion banka

Á Siglufirði.
Á Siglufirði. Sigurður Bogi Sævarsson

Á fundi stofnfjáreigenda í Afli sparisjóði á morgun verður lagt til að samþykktum sjóðsins verði breytt þannig að atkvæðisréttur verði í hlutfalli við stofnfjáreign. Samkvæmt heimildum mbl.is er breytingunni ætlað að auðvelda yfirtöku Arion banka á sjóðnum.

Með þessu yrðu gerðar grundvallarbreytingar á umgjörð og starfsemi sjóðsins sem ágreiningur hefur verið um.

Mbl.is hefur undir höndum bréf Sigríðar Hrólfsdóttur, stjórnarformanns Afls sparisjóðs, þar sem boðað er til fundar á Siglufirði í fyrramálið.

Fjórir liðir eru á dagskránni. Undir lið 2 verður lagt til „að breytingar verði gerðar á 1. málsgrein 5. greinar samþykkta sjóðsins þannig að síðari tveir málsliðir greinarinnar verði felldir brott og greinin verði svohljóðandi: „Stofnfjáreigendur eiga einn eða fleiri jafngilda stofnfjárhluti og er atkvæðisréttur í réttu hlutfalli við stofnfjáreign.““

Samkvæmt heimildum mbl.is er breytingunni ætlað að auðvelda Arion banka að taka yfir sjóðinn.

Varð til með sameiningu tveggja sparisjóða

Fjallað var ýtarlega um stöðu sparisjóðanna í Viðskiptamogganum í síðustu viku.

Þar kom fram að Afl sparisjóður varð til við sameiningu Sparisjóðs Siglufjarðar og Sparisjóðs Skagafjarðar árið 2008 en sameinaður sjóður var í eigu Sparisjóðs Mýrasýslu. Þegar síðastnefndi sjóðurinn féll árið 2009 tók Nýja Kaupþing (síðar Arion banki) yfir starfsemi hans og dótturfélaga. Af þeim sökum fer Arion banki í dag með stærstan hluta stofnfjár í Afl sparisjóði eða 94,5%. Bankinn setti Sparisjóðinn í opið söluferli árið 2011 og eitt tilboð barst í sjóðinn og því var ekki tekið  

Í þessari umfjöllun kom jafnframt fram að tvennt gerði Arion banka erfitt fyrir um breytingar á Afli. Annars vegar að að Samkeppniseftirlitið hafi staðið í vegi fyrir meiri samþjöppun en þeirri sem hefur reynst nauðsynleg og hins vegar að samþykktir Afl sparisjóðs geri ráð fyrir að enginn stofnfjáreigandi fari með meira en 5% vægi atkvæða á aðalfundum sjóðsins. Því hafi Arion banki ekki mikið formlegt vægi miðað við tæplega 95% eignarhlut sinn í sparisjóðnum.

Eigið fé sjóðsins við árslok 2013 nam tæpum milljarði króna og eignir sjóðsins voru metnar á rúma 15 milljarða.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK