72 milljarða hagnaður í sjávarútvegi

Arðsemi í sjávarútvegi hefur verið verulega góð á síðustu árum í samanburði við ýmsar aðrar greinar í atvinnulífinu. Svigrúm íslenskra útgerðarfyrirtækja til fjárfestinga hefur sjaldan verið jafn gott á mælikvarða undirliggjandi rekstrar og skuldsetningar.

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki skiluðu um 72 milljarða króna rekstrarhagnaði fyrir afskriftir (EBITDA) árið 2013. Það er um 10% minna en árið á undan en þá nam hagnaðurinn tæpum 80 milljörðum króna. Tekjur sjávarútvegsins námu um 271 milljörðum árið 2013 og jukust um 2% milli ára. Hærri tekjur má skýra með auknum útflutningstekjum af loðnu og þorski en á sama tíma vó þar á móti lítils háttar styrking krónunnar ásamt ögn lægra afurðaverði en árið 2012.

Uppsjávarfiskur hækkaði meira en botnfiskur

Arðsemi í sjávarútvegi hefur batnað töluvert frá árinu 2008 en rekja má það að miklu leyti til gengisfalls krónunnar sem jók tekjur sjávarútvegsins verulega á sama tíma og kostnaður, sem er einungis að hluta til í erlendri mynt, hækkaði mun minna.

Þessi þróun hefur því leitt til þess að EBITDA-framlegð, sem er rekstrarhagnaður án afskrifta sem hlutfall af tekjum, hefur vaxið. Breytingin hefur þó verið mun meiri í vinnslu en veiðum. Þannig var EBITDA-framlegð að meðaltali 10% í fiskvinnslu árin 1999-2008 en að meðaltali 18% árin 2009-2013. Sömu hlutföll í fiskveiðum voru 21% og 25%.

Skipafjárfestingar fyrir 33 milljarða

Nú standa fyrir dyrum miklar fjárfestingar í fiskiskipum hjá mörgum af stærstu útgerðarfyrirtækjum landsins. Samið hefur verið um smíði á 12 togurum og uppsjávarskipum á næstu árum. Af þeim 10 togurum sem smíðaðir verða er einungis einn frystitogari en hinir níu eru ísfisktogarar. Þessar miklu fjárfestingar koma til af tvennu. Annars vegar hefur togaraflotinn elst töluvert frá aldamótum og er orðinn gamall og úr sér genginn. Hins vegar hefur svigrúm íslenskra útgerðarfyrirtækja til fjárfestinga sjaldan verið jafn gott á mælikvarða undirliggjandi rekstrar og skuldsetningar.

Þannig hefur hlutfall á milli EBITDA og langtímaskulda ekki verið jafn hagstætt, og svigrúm til fjárfestinga á þann mælikvarða ekki verið jafn gott, síðan rétt eftir síðustu aldamót. Þessar ráðgerðu skipafjárfestingar nema samtals 33 milljörðum króna og verða skipin afhent á árunum 2015 til 2017. Langstærsti hlutinn verður afhentur á næsta ári þegar skip að andvirði 23,2 milljörðum króna koma til landsins.

Arðsemi í sjávarútvegi hefur verið verulega góð á síðustu árum.
Arðsemi í sjávarútvegi hefur verið verulega góð á síðustu árum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK