Eyddu milljörðum í skoðanaferðir í mars

Norðurljósin hafa dregið marga ferðamenn í skoðunarferðir í mars.
Norðurljósin hafa dregið marga ferðamenn í skoðunarferðir í mars. mbl.is/Kristinn

Sprenging hefur orðið í þeirri tegund ferðaþjónustu sem býður skipulegar skoðunarferðir og er hún orðin stærsti einstaki útgjaldaliður erlendrar kortaveltu hér á landi, frétt Rannsóknarseturs verslunarinnar. Meðal slíkra ferða eru náttúruskoðunarferðir, hvalaskoðun, jöklaferðir og aðrar ferðir undir leiðsögn fararstjóra.

Greiðslukortavelta erlendra ferðamanna í þessum útgjaldalið í mars var næstum 2,5 milljarðar kr., sem er 90% hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra. Ef bornir eru saman þrír fyrstu mánuðir þessa árs við sömu mánuði í fyrra kemur í ljós að erlend kortavelta jókst í þessum þætti ferðaþjónustunnar um 83%. Sú veltuaukning helst í hendur við mikla aukningu í leyfisveitingum til handa þeim sem bjóða skipulagðar ferðir.

Alls nam erlend kortavelta í mars 9,7 milljörðum kr. sem er 41,6% hærri upphæð en í fyrra. Næsthæsti útgjaldaliður erlendra ferðamanna, á eftir ýmissi ferðaþjónustu, var gistiþjónusta sem nam 1,8 milljörðum í mars og er 42% hærri upphæð en í mars í fyrra.

Þriðji hæsti útgjaldaliðurinn er verslun. Erlendir ferðamenn keyptu vörur í verslunum með kortum sínum fyrir 1,2 milljarða kr. í mars sem er fjórðungsaukning frá mars í fyrra. Stærstur hluti þess er vegna kaupa á fatnaði, líklega aðallega íslenskum útivistarfatnaði.

Af öðrum útgjaldaliðum í kortaveltu erlendra ferðamanna má nefna að liðlega fjórðungsaukning var í veltu á veitingahúsum í mars í samanburði við mars í fyrra.  Mikill vöxtur er áfram í veltu bílaleiga. Veltuaukning bílaleiga í mars var 48% frá sama mánuði í fyrra. Þá námu úttektir erlendra ferðamanna á reiðufé með kortum um 877 milljónum kr. eða 20% meira en í mars í fyrra.

Samanlögð kortavelta erlendra ferðamanna fyrstu þrjá mánuði þessa árs var 38% meiri en sömu þrjá mánuði í fyrra.

Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir um 115 þús. kr. í mars. Það er 11,7% hærri upphæð en í mars í fyrra. Með því að leiðrétta þessa upphæð fyrir verðlagsbreytingum síðustu 12 mánaða nam hækkunin 9,9% á milli ára.

Svisslendingar eyða mestu

Ferðamenn frá Sviss keyptu að jafnaði fyrir hæstu upphæðir með greiðslukortum eða 264 þús. kr. á hvern ferðamann. Spánverjar fylgja þar fast á eftir með 211 þús. kr.

Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.

Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK