Birting trúnaðarupplýsinga mistök

Fjármálaeftirlitið
Fjármálaeftirlitið mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem birting trúnaðarupplýsinga varðandi fjárhagslega stöðu Sparisjóðs Norðurlands voru gerðar opinberar, er hörmuð.

Líkt og kom fram í ViðskiptaMogganum þann 30. apríl sl. hafði Fjármálaeftirlitið fyrir mistök veitt Seðlabanka Íslands heimild til að birta opinberlega upplýsingar úr óbirtum ársreikningi Sparisjóðs Norðurlands.

Sparisjóðurinn hafði afhent FME reikninginn í trausti þess að trúnaður myndi ríkja um efni hans þar til að eigendum sjóðsins hefði verið kynnt niðurstaða rekstrarársins 2014 á aðalfundi sem stefnt er að því að halda í lok maí.

Seðlabankinn birti upplýsingar úr reikningnum í riti sínu Fjármálastöðugleiki í síðustu viku og er þar án fyrirvara upplýst að tap af rekstri Sparisjóðs Norðurlands hafi numið rúmum 672 milljónum króna á síðasta ári og að eiginfjárhlutfall hans hafi verið 0,2% yfir lögbundnu lágmarki um áramót. Þá segir í skýrslunni að sparisjóðurinn „vinni nú að því að tryggja að sjóðurinn standist þá eiginfjárkröfu sem Fjármálaeftirlitið gerir.

Stjórnendur og helstu eigendur Sparisjóðs Norðurlands ráku upp stór augu þegar upplýsingarnar voru birtar opinberlega enda voru þeir vissir um að trúnaður ríkti um þessi gögn sem afhent höfðu verið FME. „Það er afar óheppilegt að þessi gögn hafi verið birt með þessum hætti, ekki síst í ljósi þess hver staða sjóðsins er,“ sagði Jónas M. Pétursson sparisjóðsstjóri í samtali við ViðskiptaMoggann og bætti við: „Við höfum verið að vinna í því að bæta stöðuna en þetta hjálpaði okkur ekki í þeirri vinnu. Við gengum út frá því að þetta væru trúnaðarupplýsingar og að eðlilegt væri að eigendur sjóðsins fengju fyrst tækifæri til að gera sér grein fyrir stöðu mála áður en reikningurinn yrði gerður opinber.“

Í sama streng tekur Jón Gunnar Jónsson forstjóri Bankasýslu ríkisins en hún fer með 79,2% eignarhlut ríkisins í sjóðnum. „Það er mjög bagalegt að þessar trúnaðarupplýsingar hafi farið út með þessum hætti.“

Sameiginleg yfirlýsing Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands vegna birtingar á trúnaðarupplýsingum í ritinu Fjármálastöðugleiki:

„Í ritinu Fjármálastöðugleiki, sem Seðlabanki Íslands gaf út hinn 22. apríl 2015, birtust upplýsingar um ársreikning Sparisjóðs Norðurlands fyrir árið 2014 sem ekki voru orðnar opinberar. Við útgáfu ritsins er þeirri reglu fylgt að upplýsingar er varða einstaka aðila séu einungis birtar hafi þær þegar verið gerðar opinberar eða leyfi fengist fyrir birtingunni hjá viðkomandi aðila. Birting upplýsinganna voru því mistök sem stofnanirnar harma, enda leggja þær ríka áherslu á vandaða meðferð gagna frá eftirlitsskyldum aðilum sem stofnanirnar hafa fengið afhentar í trúnaði. Til þess að fyrirbyggja að slík mistök eigi sér stað í framtíðinni munu stofnanirnar í sameiningu fara yfir og gera viðeigandi endurbætur á verkferlum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK