Gervifótum stýrt með hugarafli

Íslenska heilbrigðistæknifyrirtækið Össur hefur þróað nýja tækni sem gera mun fólki með gervifætur kleift að stýra fótunum með hugarafli. Fyrirtækið er fyrst í heiminum til að kynna þessa tækni fyrir neðri útlimi en tveir Íslendingar með gervifætur hafa verið með hana í prófun í rúmt ár og munu prófanir halda áfram, samkvæmt upplýsingum frá Össuri.

Í tækninni felst að sérstökum nema (e. surgically implanted myoelectric sensor, IMES) er komið fyrir í vöðva og tekur neminn við taugaboðum frá heila og sendir samstundis áfram í gervifótinn sem framkvæmir hreyfinguna sem notandinn hafði ómeðvitað hugsað sér að framkvæma. Neminn tengist við nýjustu gervifætur Össurar sem eru með gervigreind (e. bionic prosthesis), þ.e. þeir eru „snjallir“ og geta aðlagast göngulagi og -hraða notandans en krefjast enn meðvitaðrar hugsunar af hálfu notandans.

Mikilvægt tæknilegt framfaraskref

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, kynnti tæknina á fjárfestafundi í Kaupmannahöfn í dag. „Gervifætur sem stýrt er með huganum eru mikilvægt tæknilegt framfaraskref og fánaberi næstu kynslóðar af gervigreindartækni,” sagði Jón. „Með því að aðlagast ekki aðeins meðvituðum hreyfingum notandans heldur einnig ómeðvituðum hreyfingum hans erum við nær því en nokkru sinni fyrr að búa til gervifætur sem starfa algerlega með notandanum og eru nær fullkomin framlenging á þeim sem misst hafa útlim.”

Tveir Íslendingar fyrstir til að prófa tæknina

Að sögn Þorvaldar Ingvarssonar, doktors í bæklunarskurðlækningum og framkvæmdastjóra þróunarsviðs Össurar, byrja hreyfingar hjá ófötluðum í undirmeðvitundinni sem sendir taugaboð í réttan líkamshluta og virkjar viðeigandi vöðva til að hreyfast. Tækninýjungin frá Össuri líkir eftir þessu ferli hjá aflimuðum nema að hjá þeim enda taugaboðin í IMES nemanum sem í kjölfarið sendir þau rakleiðis áfram í gervifótinn. Tveir Íslendingar hafa verið að prófa tæknina síðan í rúmt ár og var það Þorvaldur sem græddi nemann í þá. Mennirnir hafa báðir lýst yfir mikilli ánægju með tæknina og sagt reynslu sína af henni afar jákvæða. Frekari tilraunir þurfa þó að fara fram áður en hún verður sett á markað en búist er við að það verði innan nokkurra ára.

„Tæknin gerir það að verkum að upplifun notandans verður næmari og samhæfðari. Niðurstaðan er sú að notandinn getur hreyft gervifótinn samstundis hvernig sem hann vill. Notandinn þarf ekki að hugsa sérstaklega um að hann ætli sér að hreyfa gervifótinn því ósjálfráðu viðbrögðum líkamans er sjálfkrafa breytt í rafboð sem stjórna gervifætinum,“ er haft eftir Þorvaldi í fréttatilkynningu. „Össur er leiðandi fyrirtæki í þróun og framleiðslu gervifóta og stoðtækja á heimsvísu og við verjum miklu af tíma og fjármunum fyrirtækisins til nýsköpunar. Við erum staðráðin í því að leita stöðugt nýrra uppgötvana til að hjálpa fleirum að njóta lífsins án takmarkana.“

Tæknin gerir það að verkum að upplifun notandans verður næmari …
Tæknin gerir það að verkum að upplifun notandans verður næmari og samhæfðari.
Jón Sigurðsson.
Jón Sigurðsson.
Þorvaldur Ingvarsson.
Þorvaldur Ingvarsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK