Sú ríkasta tapaði fyrir börnunum

Gina Rinehart
Gina Rinehart AFP

Auðugasti Ástralinn, Gina Rinehart, tapaði í dag máli fyrir dómstólum og er henni gert að afhenda elstu dóttur sinni yfirráð yfir sjóði sem fer með hluta af auð fjölskyldunnar.

Hæstiréttur New South Wales tilnefndi Bianca Rinehart sem yfirmann sjóðsins sem fer með eignir fjölskyldunnar. Sjóðurinn er metinn á 4-5 milljarða Ástralíudala, sem svarar til 422-517 milljarða króna. Sjóðinn stofnaði faðir Ginu Rinehart, Lang Hancock.

Hancock hóf starfsævi sína sem bóndi, asbestnámamaður og málmleitarmaður í Pilbara í norðvesturhluta Ástralíu. Dag einn var hann á flugi á afskekktum slóðum í úrhelli, að því er sagan segir, og sá þá hvernig ryðrauður litur kom fram á blautum klettaveggjum. Liturinn var vísbending um járn. Hancock sneri aftur og varð þessi fundur upphafið að velgengni hans, að því er fram kemur í umfjöllun Karl Blöndals í Morgunblaðinu árið 2013 um auðævi fjölskyldunnar.

Gina var hans eina barn og feðginin voru mjög náin framan af. Hún fékk frá honum áhugann á námavinnslu og Pilbara. Gina giftist tvisvar, eignaðist tvö börn með fyrri manninum og tvö með þeim síðari, Frank Rinehart, bandarískum lögmanni, sem var 37 árum eldri en hún og hafði verið sviptur lögmannsréttindum í Bandaríkjunum fyrir skattsvik. Lang Hancock mun hafa verið tortrygginn í garð tengdasonarins frá upphafi og talið að hann ásældist fyrirtæki sitt. Ekki skánaði sambandið milli feðginanna þegar Hope Hancock, móðir Ginu, lést og faðir hennar tók saman við Rose Lacson, unga heimilishjálp frá Filippseyjum sem Gina hafði ráðið. Hancock kvæntist Larson, reisti henni höll, sem hann nefndi Prix d'Amour. Brúðkaupsferðin var heimsreisa í einkaþotunni hans.

Árið 1990 lést Frank Rinehart og tveimur árum síðar var Lang Hancock allur. Við tók 11 ára þref um eignir Hancocks milli Ginu og stjúpmóður hennar. Reyndi Gina meðal annars að færa sönnur á að hún hefði verið völd að dauða föður síns. Fjölmiðlar veltu sér upp úr málinu og var ekkert smáatriði of ómerkilegt til að smjatta mætti á því. Að lokum fékk Rose að halda nokkrum eignum, en Rinehart fékk öll yfirráð yfir Hancock Prospecting þar sem arðgreiðslurnar streymdu inn.

Illdeilur milli Ginu Rinehart og barna hennar hafa staðið yfir í fjögur ár eða frá því að þrjú af fjórum börnum hennar, John og systurnar Bianca og Hope, stefndu móður sinni og kröfðust þess að fá yfirráð yfir sjóðnum. Samkvæmt ákvörðun afa þeirra, Lang, átti Rinehart að stjórna sjóðnum þar til yngsta barnabarnið yrði 25 ára árið 2011. Í sjóðnum eru tæplega 24% af Hancock Prospecting að andvirði nokkrir milljarðar dollara.

Rinehart framlengdi hins vegar umboðið til 2068, að sögn af skattaástæðum. Þá verður elsti sonur hennar, John, 92 ára gamall. 

Dómarinn, Paul Brereton, sagði við dómsuppkvaðninguna í dag að Rinehart hafi gengið of langt til þess að viðhalda völdum sínum yfir sjóðnum og að Bianca skyldi taka við umsjón hans.

Gina Rinehart var fyrr í vikunni nefnd 37. áhrifamesta kona heims af Forbes tímaritinu en eignir hennar eru metnar á 12,2 milljarða Bandaríkjadala. Það er mun minna en í fyrra er eignir hennar voru metnar á 17,4 milljarða dala en verð á járni hefur lækkað töluvert á milli ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK