Vilja fara „íslensku leiðina“

Yianis Varofakis, fjármálaráðherra Grikklands, og Tsipras forsætisráðherra.
Yianis Varofakis, fjármálaráðherra Grikklands, og Tsipras forsætisráðherra. AFP

Fulltrúar gríska stjórnarflokksins Syriza eru sagðir ætla að leggja fram nýjar hugmyndir um það sem kallað er „íslenska leiðin“ og felur í sér að ríkið taki yfir grísku bankana og að sett verði á gjaldeyrishöft. 

Heimildir herma að einnig felist í hugmyndunum að stofna nýjan seðlabanka sem á að bera uppi nýtt peningakerfi í landinu. Mikil leynd hefur hvílt yfir hugmyndunum sem búist er við að kynntar verði á næstu dögum. Samstaða er sögð vera á milli nokkurra flokka á vinstri væng stjórnmálanna í Grikklandi og þjóðernissinnarnir í flokknum ANEL eru einnig sagðir vera með í spilum. „Okkur hryllir við hugmyndinni um að gefast upp og við ætlum ekki að láta Evrópska myntbandalagið kæfa okkur til dauða,“ segir ónafngreindur þingmaður Syriza í samtali við The Telegraph.

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa á undanförnum mánuðum átt í viðræðum við lánardrottna en Alexis Tsipras, forsætisráðherra landsins,varar þá við. „Okkar eina skilyrði í viðræðunum er það að við ætlum ekki að láta nauðbeygja okkur og við viljum að þessi kreppa taki enda,“ sagði Tsipras. „Ef Evrópa ætlar að halda áfram að skapa ójöfnuð og nauðbeygja okkur þá munum við segja nei við því. Við ætlum að berjast fyrir virðingu íbúa Grikklands og sjálfstæði okkar.“

Þann 30. júní verður gríska ríkið að greiða næstu greiðslu af lánum sínum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Sú greiðsla hljóðar upp á 1,6 milljarða evra. Óvíst er að gríska ríkið geti staðið við þá greiðslu og hefur ríkisstjórnin skipað öllum borgarstjórum í landinu að færa gjaldeyrisvaraforða borganna til seðlabankans til öryggis en óvíst er að það dugi til.

Gríska ríkisstjórnin endurtók um helgina loforð sín um að ætla ekki að hækka neysluskatta, draga úr lífeyrisréttindum eða lækka laun. „Ekki verður farið í aðgerðir sem hamla vexti. Sú tilraun hefur staðið yfir nógu lengi,“ segir í tilkynningu frá ríkisstjórninni sem birt var um helgina.

Fulltrúar bankanna verða brjálaðir

Sumi saka grísk stjórnvöld um að reyna að „blöffa“ viðsemjendur, og að lokum muni þeir bogna undan álaginu. Tasos Koronaki, formaður Syriza, segir það ekki rétt og að allar slíkar tilraunir til þess að sundra flokksmönnum muni mistakast. „Ríkisstjórnin mun aldrei samþykkja aðgerðir nema þær hafi verið samþykktar innan flokksins okkar fyrst. Við stöndum þéttar saman en við höfum nokkurn tímann áður gert,“ segir Koronaki.

Grískur þingmaður sem tjáir sig við The Telegraph, segir „íslensku leiðina“ vera þá réttu fyrir landið. „Við verðum að þjóðnýta bankana og það verða einhverjar takmarkanir settar á fjármagnsflutninga úr landi. Fulltrúar bankanna verða brjálaðir og þeir munu fara með málið fyrir dómstóla. En í lok dags þá förum við með lagasetningarvald,“ segir hann. Á hverjum degi eru teknar út um 400 milljónir  evra úr grískum bönkum og er óttast að það geti magnast upp í bankaáhlaup á skömmum tíma. Margir Grikkir treysta ekki lengur bönkunum og hafa tekið út sparifé sitt. 

Tsipras hefur mikið fundað með leiðtogum annarra Evrópuríkja.
Tsipras hefur mikið fundað með leiðtogum annarra Evrópuríkja. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK