Haldi krónunni með óbreyttan útflutning

Robert Z. Aliber segir að sérstaðan í útflutningi landsins sé …
Robert Z. Aliber segir að sérstaðan í útflutningi landsins sé meginástæða þess að halda eigi í krónuna. mbl.is/Eggert

„Mín skoðun er að afnám fjármagnshaftanna hjá stjórnvöldum sé ekki framkvæmt á réttan hátt. Það hefði átt að gera þetta í skrefum yfir 2-3 ára tímabil frekar en allt í einu. Það hefði átti að heimila þeim sem vildu og þeim sem lá mikið á að komast út að losna héðan en dreifa þessari aðlögun yfir lengra tímabil frekar en að gera þetta á nokkrum dögum,“ segir Robert Z. Aliber, prófessor í alþjóðahagfræði og fjármálum við Háskólann í Chicago í samtali við ViðskiptaMoggann. Aliber er staddur hér á landi og hélt erindi á vegum hagfræðideildar HÍ og Samtaka sparifjáreigenda í vikunni.

Láta gengið fljóta innan marka

Aliber er þeirrar skoðunar að Ísland eigi að halda sig við krónuna frekar en að skipta yfir í evru. „Samsetningin á útflutningi hjá ykkur er mjög sérstæð þar sem þið treystið á örfáar útflutningsgreinar með sjávarútveg sem einn af stærsta hlutanum af útflutningnum. Því tel ég að þið eigið að halda krónunni.“

Hann segir að Seðlabankinn eigi að nota fleiri og harðari stjórntæki en verðbólgumarkmiðið. „Gengið er eitt af því sem hægt er að nota til að stjórna efnahagslífinu. Ég mundi leyfa genginu að fljóta innan marka.“ Hann telur að menn geti verið ósammála um hversu stíf mörkin eru en best sé að hafa frelsi í fjármagnsflæði, samt þurfi að reyna að einangra hagkerfið fyrir of miklu skammtíma ódýru fjármagnsflæði. Hann segir það geti truflað stöðugleika efnahagslífsins og geri mjög lítið til að ýta undir hagvöxt, jafnvel leiði slíkt flæði til mikillar hækkunar á fasteignaverði og hlutabréfaverði.

Fjórar kreppur síðustu 40 ár

Í erindi Aliber kom fram að síðustu 40 ár hafi verið fjórar fjármálakreppur. Sú fyrsta var 1982 þegar lönd eins og Mexíkó, Brasilía og Argentína lentu í vandræðum. Önnur kreppa varð 1992, meðal annars í Japan, Finnlandi og Svíþjóð. Þriðja er Asíu-kreppan sem varð í Malasíu, Taiwan og Suður-Kóreu. Sú fjórða hófst síðan 2008 í Bretlandi, Írlandi, Bandaríkjunum, Spáni, Íslandi og í fleiri löndum. Hann segir að munstrið sé yfirleitt það sama, hvert þessara landa hafi fengið mikið fjármagn inn í hagkerfið sem endar með fjármagnshalla. Skuldastaðan versni hratt sem leiðir síðan til hverfandi lánstrausts. Hann segir að við búum í raun við peningakerfi sem virki ekki sem skyldi.

Aliber nefndi mikilvægi tengslanna á milli verðs á vörum og þjónustu heima fyrir og verðs á vörum og þjónustu í öðrum löndum.

„Það sem er mikilvægt fyrir hvert land er gjaldmiðillinn og gengi hans því öll lönd vilja hafa afgang af útflutningsviðskiptum. Við viljum hafa jafnvægi á milli verðs á okkar auðlindum og verðs á auðlindum annarra landa.“ Gengið verður því brú á milli heimamarkaðar og erlendra markaða. En gengið á ekki einungis við vörur og þjónustu heldur einnig fjármálalegar vörur eins og verðbréf. „Gengi gjaldmiðilsins er því mikilvægasta verð hvers lands og þarf að þjóna bæði markaði fyrir vörur og fjármálamarkaðinum.“

Hann tók sem dæmi mikil áhrif sem urðu við breytingar á genginu í Japan fyrir nokkru og breytingarnar sem eru að verða á gengi evrunnar gagnvart dollar. Hann vill taka svo djúpt í árinni að tala um gengisstríð.

Margir byggingakranar

Í ljósi þess að Aliber spáði fyrir umhrun íslenska efnahagskerfisins í maí 2008, þegar hann lýsti því yfir að íslenska hagkerfið stæði frammi fyrir alvarlegri fjármálakreppu, er hann spurður hvaða sýn hann hafi á íslenskt efnahagslíf núna? „Það virðist sem íslenskt efnahagslíf gangi mjög vel núna. Það eru margir byggingarkranar sjáanlegir og greinilega mikið verið að byggja. Þá hefur atvinnuleysi verið að minnka mikið.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK