Hindrar styrkingu krónunnar

Seðlabankinn hefur nýtt sér mikið gjaldeyrisinnflæði vegna vaxtar ferðaþjónustunnar til …
Seðlabankinn hefur nýtt sér mikið gjaldeyrisinnflæði vegna vaxtar ferðaþjónustunnar til að auka gjaldeyrisforðann sinn. mbl.is/Ómar

Ef ekki væri fyrir stórfelld gjaldeyriskaup Seðlabanka Íslands á árinu, þá hefði íslenska krónan trúlega styrkst verulega. Mikið gjaldeyrisinnflæði, þá meðal annars vegna mikils vaxtar í ferðaþjónustunni og bættra viðskiptakjara, hefur gert Seðlabankanum það kleift að auka verulega forðasöfnun sína í gjaldeyri það sem af er ári.

Þetta segir Jón Bjarki Bentsson, hagfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, í samtali við mbl.is.

Júní var metmánuður þegar kemur að kaupum Seðlabankans á gjaldeyri. Bankinn keypti í mánuðinum tæplega 200 milljónir evra á millibankamarkaði, sem samvarar um 29 milljörðum króna. Áður hafði bankinn mest keypt 115 milljónir í einum mánuði, í ágúst í fyrra.

Hreinn gjaldeyrisforði stóraukist

Jón Bjarki segir að þessi miklu gjaldeyriskaup í júnímánuði endurspegli að stórum hluta mikið innflæði gjaldeyris vegna þjónustuviðskipta. Það endurspeglist til að mynda í nýlegum tölum Seðlabankans um kortaveltu, sem sýna að velta vegna útlendinga hér á landi í júní var ríflega níu milljörðum króna meiri en kortavelta Íslendinga erlendis.

Gildar ástæður séu fyrir því að bankinn hafi safnað í sarpinn, ef svo má segja. Hreinn gjaldeyrisforði bankans, þ.e. gjaldeyriseignir hans umfram skuldbindingar í gjaldeyri, hafi verið lítill fyrir um einu og hálfu ári síðan, en hann hafi hins vegar stóraukist á árinu.

„Það er mikilvægt fyrir trúverðugleika krónunnar og til að byggja undir trú og traust á að það séu einhverjir burðir til að standa gegn sviptingum í gjaldeyrisflæði, sér í lagi ef við erum að fara að losa gjaldeyrishöftin,“ segir Jón Bjarki.

Lítið lát á gjaldeyriskaupunum

Hann nefnir að eins og gengi krónunnar og staða hagkerfisins sé núna, þá megi segja að takmörk séu fyrir því hversu mikil gengisstyrking væri heppileg. „Mikil viðbótarstyrking á krónunni myndi til dæmis draga úr afgangi á utanríkisviðskiptum okkar. Það gæti orðið skammgóður vermir. Ef utanríkisviðskiptin verða óhagstæð, þá eykur það líkur á falli gjaldmiðilsins seinna meir.“

Hann telur afar líklegt að lítið lát verði á gjaldeyriskaupum Seðlabankans á komandi mánuðum. „Bankinn hefur sagt það skýrt að þetta sé stefnan, að nýta þetta mikla innflæði í forðasöfnun. Ferðamannastraumurinn er í hámarki, það er þokkalegt jafnvægi á vöruviðskiptum og nettó afborganir og vaxtagreiðslur af erlendum lánum hafa minnkað töluvert frá því sem var fyrir nokkrum árum.

Allt hjálpar þetta við að teikna upp þá mynd fyrir komandi mánuði að hér verði áfram töluvert gjaldeyrisinnflæði.“

Hann bætir við að viðskiptakjör landsins hafi batnað töluvert, ekki síst vegna lægra eldsneytisverðs og hækkandi verðs á sjávarafurðum. Það hjálpi einnig til.

Jón Bjarki Bentsson, hagfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka.
Jón Bjarki Bentsson, hagfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka. mbl.is/Þórður
Seðlabankinn keypti tæplega 200 milljónir evra á millibankamarkaði í júnímánuði. …
Seðlabankinn keypti tæplega 200 milljónir evra á millibankamarkaði í júnímánuði. Það er met. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK