Brýn verkefni og breytingar framundan

Hermann Jónasson nýr forstjóri Íbúðalánasjóðs.
Hermann Jónasson nýr forstjóri Íbúðalánasjóðs.

„Ég er mjög spenntur fyrir verkefninu og tel mikil tækifæri til framtíðar í þessum sjóði.“ Þetta segir Hermann Jónasson, nýr forstjóri Íbúðalánasjóðs, en hann mun taka til starfa á mánudaginn kemur. Í apríl á þessu ári hætti Sigurður Erlingsson sem forstjóri, en hann hafði stýrt sjóðnum í um fimm ár.

Mikil vinna við að greina fjárhagsstöðu sjóðsins

Hermann segir að framundan sé stefnumótun með stjórn og svo þurfi hann að setja sig inn í starfið. Nefnir hann að mikið verði að gera við að yfirfara fjárhagsstöðu sjóðsins, en mikið hefur verið rætt um erfiða stöðu hans þar sem mikið hefur verið greitt upp af lánum sem sjóðurinn veitti á meðan minna hefur verið um ný útlán. Hefur ríkissjóður vegna þessa þurft að leggja sjóðnum til um 55 milljarða frá árinu 2009.

Hermann segir að stefna sjóðsins sé í höndum Alþingis, en að hann muni leggja mikla vinnu í að átta sig á sjóðstreymi sjóðsins og greina stöðu hans í framhaldinu.Segist hann hlakka mikið til að taka til starfa með öflugu starfsfólki sjóðsins við að vinna að þessum verkefnum.

Hermann var áður framkvæmdastjóri hjá bæði Landsbankanum og hjá Arion banka, en hann segir að sú reynsla muni án efa nýtast sér vel í nýja starfinu. Þá hefur hann undanfarin fjögur ár unnið hjá Lögfræðistofu Jónatansson & co að lögfræðistörfum fyrir slitastjórn VBS fjárfestingabanka.Auk þess var Hermann forstjóri Tals á tímabili þegar Hive og Sko sameinuðust.

Brýn verkefni og breytingar framundan

„Stjórnin hlakkar til að vinna með nýjum forstjóra og það eru spennandi tímar sem eru framundan. Hermann er að taka við góðu búi með góðu starfsfólki.“ Þetta segir Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir, stjórnarformaður Íbúðalánasjóðs, en hún segir að mörg brýn verkefni séu framundan hjá sjóðnum og að breytingar séu fyrirhugaðar. Alþingi á eftir að fjalla um breytingar á lögum um sjóðinn, en Ingibjörg segir að sjóðurinn starfi beint eftir lögum og reglum sem Alþingi setji sjóðnum.

Aðspurð um fjárhagsvanda sjóðsins og næstu skref í þeim efnum segir hún að á næstunni þurfi að skoða sjóðinn í heildstæðri mynd og að ríkisstjórnin þurfi að ákveða hvernig hún ætli að taka á fjárhagsmálum sjóðsins. Aðspurð hvort hún telji þörf á að minnka sjóðinn segir hún að ekkert slíkt liggi fyrir eins og staðan sé núna.

Fjórtán sóttu um forstjórastólinn, en Ingibjörg segir að sex þeirra hafi verið teknir í viðtöl. Ráðningaferlið tók um tvo mánuði.

Íbúðalánasjóður
Íbúðalánasjóður mbl.is/Hjörtur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK