Húsnæðisverð svipað og árið 2005

mbl.is/Ómar

Raunverð á húsnæði hefur hækkað verulega á síðustu misserum, en þó er enn langt í land að það nái þeim hæðum sem það var í á árunum 2005 til 2008. Staðan nú er svipuð og hún var í byrjun ársins 2005, að mati hagfræðideildar Landsbankans.

Í umfjöllun deildarinnar segir að raunverðið hafi farið hæst í október 2007. Þyrfti það að hækka um 33% til þess að ná þeim hæðum aftur.

Í maí hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 1,1% milli mánaða, þar af um 1,1% á íbúðum í fjölbýli og 1,2% á sérbýli. Vegin tólf mánaða hækkun á íbúðarhúsnæði var því 9,1%.

Árshækkunin á fjölbýli var 9,5% og á sérbýli 7,6%. Hækkun fjölbýlis hefur verið nokkuð jöfn og þétt allt frá árinu 2011, að sögn hagfræðideildarinnar, en hækkun sérbýlis minni og sveiflukenndari. Síðustu mánuði hefur sérbýlið frekar tekið við sér og verðhækkanir aukist.

Hagfræðideildin segir athyglisvert að hækkunartaktur húsnæðisverðs hafi verið yfir 6% allt frá vorinu 2013 og hafi oft verið yfir 8% á síðasta ári.

Hagfræðideildin telur að ætla megi að nafnverð íbúðarhúsnæðis muni hækka áfram í nánustu framtíð í svipuðum takti og verið hefur. Eftirspurn virðist það mikil að framboð anni henni ekki. Þá er útlit fyrir að verðbólga, án húsnæðiskostnaðar, aukist töluvert á næstu mánuðum og mun verða töluvert hærri en verið hefur á síðustu misserum. Raunverð íbúðarhúsnæðis mun því hækka minna en nafnverð á næstu mánuðum, ef fer sem horfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK