Leggja til hækkun á afurðaverði

Sauðfé. Myndin er úr safni.
Sauðfé. Myndin er úr safni. mbl.is/Atli Vigfússon

Landssamtök sauðfjárbænda telja ekki boðlegt að afurðarverð til bænda hér á landi sé langt undir meðaltali í Evrópu. Samtökin vilja vinna með afurðarstöðvum, sem flestar eru reyndar í eigu bænda, að því að leiðrétta skiptingu afurðarverðsins í áföngum á næstu þremur árum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landssambandi sauðfjárbænda þar sem lagt er til að verðhækkanir verði þessar í áföngum:

  • Haustslátrun 2014 – meðalverð: 604 kr.
  • Haustslátrun 2015 – meðalverð: 677 kr.
  • Haustslátrun 2016 – meðalverð: 719 kr.
  • Haustslátrun 2017 – meðalverð: 762 kr.

Í tilkynningu frá sambandinu er bent á að íslenska lambakjötið sé í sókn og að sala á síðustu 12 mánuðum hafi verið sex prósentum meiri en á sama tímabili árið áður.

Þá segir að afurðaverðið til íslenskra sauðfjárbænda sé með því allra lægsta í Evrópu. „Oft munar tugum prósentna. Franskir bændur fá t.a.m. um 60% hærra verð en þeir íslensku,“ segir í tilkynningu. 

Í tilkynningunni segir að hærra verð til bænda í Evrópu þýði hins vegar ekki að verð til neytenda sé nauðsynlega hærra. Bændur í Evrópu fái einfaldlega stærri hluta af útsöluverðinu til sín. „Í Bretlandi fá bændur t.d. á milli 50% og 60% af endanlegu útsöluverði í sinn hlut.“

Þá segir að alengt sé að íslenskir bændur fái sem nemur á bilinu 25% til 41% af endanlegu útsöluverði. „Þegar tekið hefur verið tillit til 11% virðisaukaskatts þýðir þetta að milliliðir; sláturhús, kjötvinnslur og verslanir taka á bilinu 49% til 65% af endanlegu útsöluverði á lambakjöti til sín.“  Í einstaka tilfellum fái bændur þá ekki nema um tíunda hluta af smásöluverði sauðfjárafurða. 

Landssamtök sauðfjárbænda gerðu verðkönnun í sex verslunum á höfuðborgarsvæðinu miðvikudaginn 27. júlí. Þetta voru Hagkaup, Bónus, Nettó, Krónan, Víðir og Melabúðin.

Kannað var verð á ófrosnum lærum og hryggjum. Samkvæmt henni var meðalkílóverð á lambalæri 1.807 kr. kg.

„Landssamtök sauðfjárbænda telja það varla geta talist sanngjörn viðskipti að milliliðir, sem sumir hverjir skila milljarða hagnaði, taki til sín svo stóran hluta af verðinu. Þetta fyrirkomulag er hvorki neytendum né bændum til hagsbóta.“

Mynd/Landssamtök sauðfjárbænda
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK