Stórar breytingar í fáum flokkum

Innflutningur á flugvélum jókst um 14,1 milljarð króna milli ára.
Innflutningur á flugvélum jókst um 14,1 milljarð króna milli ára. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Mikill vöxtur var á utanríkisviðskiptum á fyrri hluta ársins borið saman við sama tímabil í fyrra. Þannig jókst útflutningur vöru og þjónustu um tuttugu prósent og innflutningur á vöru og þjónustu um prósent á gengi hvors árs.

Í Hagsjá Landsbankans segir að á fyrri árshelmingi hafi útflutningur vöru og þjónustu numið 583 milljörðum króna sem er um 97,2 milljarða króna meiri útflutningur en á sama tíma í fyrra. Vöruútflutningurinn jókst hlutfallslega meira eða um 23 prósent en þjónustuútflutningurinn jókst um rúm 16 prósent.

Aukinn vöruútflutningur skýrist einkum af auknu útflutningsverðmæti tveggja útflutningsstoða; sjávarútvegs og áls. Án vaxtar í þessum tveimur greinum hefði mælst samdráttur í heildarvöruútflutningi milli ára.

Útflutningsverðmæti sjávarafurða var 26 milljarðar króna meira fyrsta hálfa árið en á sama tíma í fyrra en það gerir um 19 prósent vöxt. Í Hagsjánni kemur fram að það skýrist að miklu leyti af mun betri loðnuvertíð en á sama tíma í fyrra en útflutningsverðmæti loðnu var 11 milljörðum króna meira en á sama tíma í fyrra.

Útflutningur á þorski óx einnig verulega og útflutningsverðmæti áls jókst um 30 prósent milli ára sem skýrist fyrst og fremst af styrkingu dollarans gagnvart krónu.

Flutningatæki skýra stóran hlut

Innflutningur vöru og þjónustu nam 512 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins borið saman við 449 milljarða króna á sama tíma í fyrra. Aukningin nemur um 63 milljörðum króna eða 14 prósentum.

Rétt eins og með útflutninginn skýrir vöruinnflutningurinn stærri hlut af vextinum en hann jókst um rúma 56 milljarða króna eða um 20 prósent, en þjónustuinnflutningurinn um 6,6 milljarða króna eða 3,9 prósent.

Aukinn vöruinnflutningur skýrist að stærstum hluta af stórum breytingum í fáum vöruflokkum. Þannig jókst innflutningur á flutningatækjum um 26,8 milljarða en af þeirri tölu eru flugvélar með 14,1 milljarð króna og innflutt skip með 2,6 milljarða. Innflutningur fólksbíla jókst um 5,6 milljarða króna eða um 38 prósent.

Annar liður sem jókst mikið eru unnar hrá- og rekstrarvörur en aukningin þar nam 19,8 milljörðum króna milli ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK