„Hækkar verð en eykur ekki gæði“

Konditorisambands Íslands hefur ásamt öðrum fagfélögum lagst gegn breytingum á …
Konditorisambands Íslands hefur ásamt öðrum fagfélögum lagst gegn breytingum á löggjöf um lögverndun iðnstarfa. Rósa Braga

Flestir vita að hérlendis þarf leyfi frá stjórnvöldum til að starfa við lækningar eða lögmennsku. Færri vita að hið sama á við um kökugerð, skrúðgarðyrkju og klæðskerasníði. Lögvernduðum atvinnugreinum hefur fjölgað verulega og í dag þarf leyfi stjórnvalda til að sinna 173 tegundum starfa á Íslandi.

Í nýrri grein Viðskiptaráðs Íslands segir að lögverndun hafi ávallt verið komið á í nafni neytendaverndar en að í reynd beri hún mörg einkenni sérhagsmunagæslu. „Í krafti lögverndunar geta þeir sem fyrir sitja hækkað verð til viðskiptavina sinna og hindrað aðgengi annarra að sömu störfum. Á sama tíma bendir reynslan ekki til þess að lögverndun leiði til bættrar þjónustu,“ segir Viðskiptaráð.

Lögverndun nær til um 60 þúsund starfa hérlendis, sem jafngildir um þriðjungi allra starfa í landinu, samkvæmt áætlun Viðskiptaráðs.

Þá eiga Íslendingar jafnframt Norðurlandamet í lögverndun en hún telst bæði víðtækari, meira íþyngjandi og yfirgripsmeiri en í grannríkjunum. Viðskiptaráð nefnir t.d. að í tilfelli sérfræðiþjónustu sé talsvert erfiðara fyrir þann sem vill hefja starf að uppfylla skilyrði leyfisskyldu hérlendis en á öðrum Norðurlöndum.

Eykur tekjur stéttarinnar

„Lögverndun hækkar verð til viðskiptavina og eykur tekjur þeirra sem fyrir eru í stéttinni en hefur engin áhrif á gæði þeirrar þjónustu sem er veitt,“ segir Viðskiptaráð. 

Vísað er til þess að í samantekt á tólf rannsóknum á áhrifum lögverndunar á gæði fundu tvær þeirra jákvæð áhrif, níu rannsóknir fundu engin áhrif og ein rannsókn fann neikvæð áhrif.

Áhrif lögverndunar á gæði þjónustu eru því talin óljós. Þegar kemur að áhrifum á verð er sambandið hins vegar skýrt. Í sömu samantekt voru ellefu rannsóknir á áhrifum lögverndunar á verð skoðaðar. Niðurstaða níu þeirra var að verð væru marktækt hærri af völdum lögverndunar.

Þá var niðurstaða umfangsmikillar rannsóknar að starfsfólk í lögvernduðum greinum hefur 28% hærri tekjur en þegar störfin eru frjáls.

Viðskiptaráð segir stjórnvöld vera vanmáttug gagnvart þróuninni en tilraun til að endurskoða lögverndun iðnaðarstarfa árið 2012 rann út í sandinn í kjölfar samráðsferlis við fagfélög.

Lögðust gegn breytingum

Eftir vinnu nefndarinnar lagði hún fram hóflegar lagabreytingatillögur. Þannig var einvörðungu lagt til að lögverndun í þeim iðngreinum sem ekki hafi verið kenndar hérlendis á undanförnum árum væri afnumin. Í fyrrnefndu samráðsferli bárust 20 umsagnir fagfélaga þar sem nær allir lögðust gegn breytingum á löggjöfinni. Má þar til dæmis nefna umsögn Konditorisambands Íslands, sem lagðist alfarið gegn því að lögverndun kökugerðar yrði afnumin með vísan til að lögverndun sporni gegn fúski í greininni sem geti valdið almenningi tjóni.

„Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að fylgja erlendum fordæmum og einskorða lögverndun við þær greinar þar sem hún skilar sannarlega ávinning,“ segir Viðskiptaráð. „Afnám lögverndunar í fjölmörgum atvinnugreinum myndi auka atvinnufrelsi, styðja við markmið stjórnvalda um aukna framleiðni, ýta undir nýsköpun og draga úr kostnaði fyrir bæði neytendur og fyrirtæki.“

Viðskiptaráð segir stjórnvöld vanmáttug.
Viðskiptaráð segir stjórnvöld vanmáttug. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK