Uppkaup og ferðamenn hafa mikil áhrif

Fjöldi íbúða í Reykjavík eru til leigu á vefn­um Airbnb, …
Fjöldi íbúða í Reykjavík eru til leigu á vefn­um Airbnb, bæði íbúðir sem ein­stak­ling­ar leigja út sem og stærri leigu­fé­lög. mbl.is/Styrmir Kári

Mikil uppkaup fyrirtækja á íbúðum sem eru ætlaðar til útleigu og stóraukin útleiga íbúða til ferðamanna hafa haft mikil áhrif á leigumarkaðinn á síðustu misserum. Þrátt fyrir umræðuna á telst leigumarkaðurinn hér á landi þó mjög svipaður markaðnum í nálægum löndum.

Fyrrnefndir þættir virka í sitt hvora áttina; annar eykur framboð hefðbundins leiguhúsnæðis en hinn dregur úr því. Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbanka Íslands.

Samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofu Íslands bjuggu um 21 prósent einstaklinga í leiguhúsnæði á árinu 2014 og hafði fjölgað úr 13 prósent frá árinu 2008.

Á síðustu ársfjórðungum hefur fimm til átta prósent af íbúðum á höfuðborgarsvæðinu sem einstaklingar hafa selt farið til fyrirtækja og er þetta hlutfall mun hærra miðsvæðis í Reykjavík. Gróft áætlað hverfa 250 til 300 íbúðir árlega úr hefðbundinni veltu með þessum hætti. Þessar íbúðir stækka leigumarkaðinn.

Nauðsynleg viðbót

Samhliða mikilli fjölgun ferðamanna hingað til lands hefur það færst mikið í vöxt að einstaklingar leigi íbúðarhúsnæði út til ferðamanna. Landsbankinn bendir á að í nýlegri skýrslu hafi komið fram að um 1.900 gistirými hefðu verið í boði í Reykjavík í júlí 2015 á heimasíðu þar sem sem þessi viðskipti fara fram, og vísa þar til Airbnb. Þetta þýðir að um fjögur prósent allra íbúða í Reykjavík voru skráðar á þessa heimasíðu, en einungis um 14 prósent þeirra voru með rekstrarleyfi.

Hagfræðideild Landsbankans bendir á að þarna sé greinilega um mjög umfangsmikla starfsemi að ræða og er ekki talið ólíklegt að fjöldi íbúða í þessu mengi sé mun meiri en hefur numið fjölgun leiguíbúða sem leigufélög bjóða fram. „Hátt nýtingahlutfall á hótelum í borginni bendir til þess að þessi starfsemi hafi verið nauðsynleg viðbót við það gistirými sem er fyrir hendi til þess að hægt sé að anna eftirspurn.“

Svipaður og í nálægum löndum

„Af umræðunni hér mætti ætla að leigumarkaður hér á landi sé minni en í nálægum löndum. Reyndin er alls ekki sú,“ segir hagfræðideildin.

Sé litið á skiptingu húsnæðismarkaðar á milli leigu- og eignarhúsnæðis sést að staðan hér á landi er ekki verulega frábrugðin hinum Norðurlöndunum. Þeir sem búa í eigin húsnæði eru hlutfallslega flestir í Noregi og þar á eftir koma Ísland og Finnland. Að meðaltali leigðu 27 prósent einstaklinga á Norðurlöndunum á árinu 2013 en 23 prósent Íslendinga bjuggu í leiguhúsnæði á sama tíma.

Sé litið á skiptingu leigumarkaðar í almennan markað og félagslegan og niðurgreiddan markað kemur í ljós að svokallaður félagslegur leigumarkaður er ekki til í Danmörku og er nær hverfandi í Svíþjóð.

Félagslegi markaðurinn er hlutfallslega stærstur í Finnlandi þar sem um 60 prósent leigumarkaðarins er niðurgreiddur með einhverjum hætti. Hér á landi er tæplega helmingur leigumarkaðar niðurgreiddur og tæplega 40 prósent í Noregi.

Heildarniðurstaðan er því sú að hvað stærð leigumarkaðar áhrærir er staðan hér ekki verulega frábrugðin því sem gerist á Norðurlöndunum. Sama má segja um skiptingu leigumarkaðar í almennan og félagslegan hluta, við skerum okkur heldur ekki mikið úr þar. Gangi áætlanir eftir um mikla viðbót við leiguhúsnæði með nýbyggingum studdum af stjórnvöldum mun þessi mynd svo breytast mikið á næstu árum.

Gísli Hauksson, forstjóri Gamma.Félagið á fjölda íbúða sem það leigir …
Gísli Hauksson, forstjóri Gamma.Félagið á fjölda íbúða sem það leigir út. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK