Vann stóra lottóvinninginn tvisvar

Constance Carpenito vann milljón dollara í annað sinn.
Constance Carpenito vann milljón dollara í annað sinn. Mynd/Massachusetts State Lottery

Sumir virðast bara vera heppnari en aðrir og á það sérstaklega við um hina bandarísku Constance Carpenito sem hlaut á dögunum milljón dollara lottóvinning í annað sinn. Nýjasta lottómiðann keypti hún í versluninni Stop & Shop í bænum Stoneham í Massachusetts en þar keypti hún einnig vinningsmiðann árið 1996.

Þetta er einn af stóru vinningunum í Massachusetts lottóinu og jafngildir um 132 milljónum króna á núverandi gengi.

Auk þessa vann hún nýlega tuttugu þúsund dollara, eða 2,6 milljónir króna, á happaþrennu.

Í samtali við CNN Money segir talsmaður lottósins að þetta sé ekkert annað en tilviljun og að miðarnir dreifist tilviljanakennt á 7.500 sölustaði. Þá bendir hann á að vinningslíkurnar á nýjasta lottóinu hafi verið einn á móti 693 þúsund en árið 1996 voru líkurnar einn á móti 3,78 milljónum. Líkurnar á því að vinna í bæði skiptin eru því nokkuð litlar.

Carpenito ákvað að fá vinninginn greiddan í einu lagi og segist ætla að byrja á því að halda sérlega góð jól fyrir fjölskyldu sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK