Reiðhjól hækkuðu verulega í verði

Sjaldgæft er að verð á reiðhjólum hreyfist mikið í nóvember.
Sjaldgæft er að verð á reiðhjólum hreyfist mikið í nóvember. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Verðlag lækkaði almennt í nóvember og voru nokkrir liðir sem höfðu sérstaklega mikil áhrif líkt og eldsneyti, flugfargjöld, föt, skór og símaþjónusta. Verð á reiðhjólum hækkaði aftur á móti um 7,6 prósent. Verðbólgumæling Hagstofunnar í nóvember er undir spám, og eykst því verðbólga minna en vænst var. Útlit er fyrir að verðbólga verði undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans fram yfir mitt næsta ár.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

Húsnæðisliðurinn var nánast eini liðurinn sem hafði veruleg hækkunaráhrif á vísitölu neysluverðs í nóvember og hækkaði hann í heild um tæp 0,4 prósent. 

Það sem helst hafði áhrif til lækkunar tengist innflutningi og má að mati Íslandsbanka vel greina áhrif styrkingar krónunnar og lækkunar eldsneytisverðs á þriðja ársfjórðungi.

Flugfargjöld lækkað um 40% frá júlí

Ferða- og flutningaliður vísitölunnar vó þyngst til lækkunar en í heild lækkaði hann um 1,3 prósent. Þar skipti sköpum að flugfargjöld til útlanda lækkuðu um tæp 13 prósent og hafa flugfargjöld til útlanda nú lækkað um tæp 40 prósent frá júlí sl. Þetta má rekja til nokkurra þátta, s.s. árstíðarsveiflu, lækkunar eldsneytisverðs og styrkingar krónunnar ásamt hugsanlegum áhrifum af aukinni samkeppni.

Bifreiðaverð lækkaði um rúm 0,5 prósent en aftur á móti varð veruleg hækkun á verði reiðhjóla í mánuðinum, eða um 7,6 prósent, en greining Íslandsbanka segir þetta koma talsvert á óvart enda hafi verð þeirra sjaldan hreyfst mikið í nóvembermánuði. 

Auk þess lækkaði verð á mat- og drykk um 0,7 prósent og náði sú lækkun bæði til innlendrar framleiðslu sem innfluttra matvæla. Svo virðist sem aukinn launakostnaður undanfarna mánuði í innlendri matvælaframleiðslu, sem og í dagvöruverslun, hafi tiltölulega hófleg áhrif á matvælaverð enn sem komið er.

Verð á húsgögnum gæti lækkað í jólamánuðinum

Enn fremur lækkaði verð á fötum og skóm um 0,5 prósent í nóvember og verð á húsgögnum og heimilisbúnaði lækkaði um eitt prósent. Þessir innfluttu vöruflokkar hafa hægari veltuhraða en t.d. matvara, og er því eðlilegt að áhrifa styrkingar krónu gæti seinni í þeim en matvörunni.

Lækkunin á fötum og skóm var minni en greining Íslandsbanka átti von á og er því talið að lækkunin gæti orðið enn meiri í jólamánuðinum enda fjölgar stöðugt í hópi þeirra fata- og skóverslana sem auglýsa afslátt samsvarandi vörugjöldunum þar til þau leggjast af um áramót.

Loks lækkaði verð á símaþjónustu, þ.m.t. internettengingum, um 2,4 prósent og hefur þessi liður nú lækkað um 5,5 prósent frá ágúst síðastliðnum.

Aukin samkeppni gæti hafa haft áhrif á flugfargjöld.
Aukin samkeppni gæti hafa haft áhrif á flugfargjöld. mbl.is/Þórður
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK