Arion valinn banki ársins

Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Arion banka, veitti viðurkenningunni móttöku fyrir …
Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Arion banka, veitti viðurkenningunni móttöku fyrir hönd bankans. Mynd/Arion banki

Tímaritið The Banker, sem gefið er út af The Financial Times, hefur valið Arion banka sem banka ársins á Íslandi árið 2015. Er þetta í annað sinn á síðastliðnum þremur árum sem Arion banki vinnur þessi bankaverðlaun. Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Arion banka, veitti viðurkenningunni móttöku fyrir hönd bankans.

Í tilkynningu frá Arion er greint frá rökstuðningi fyrir vali The Banker tímaritsins en þar kemur fram að horft hafi verið til þess að rekstur bankans hafi gengið vel og skilað mjög góðri afkomu á sama tíma og kostnaðarhlutfall bankans sé lágt.

Vel þykir hafa tekist til við að byggja upp alhliða fjármálafyrirtæki og auka þátt þóknanatekna í tekjum bankans, ekki síst á sviði eignastýringar og fjárfestingarbankastarfsemi.

Þáttur dótturfélaga bankans þykir einnig markverður í þessu samhengi og þá ekki síst þáttur sjóðsstýringafyrirtækisins Stefnis og Valitor sem m.a. er með vaxandi starfsemi á erlendum vettvangi og var fyrr á árinu valið til að þjónusta ApplePay í Bretlandi.

Tekið var til þess að Arion banki hefur náð góðum árangri við að lækka fjármögnunarkostnað sinn og var fyrstur íslenskra banka síðan 2008 til að gefa út skuldabréf í evrum til breiðs hóps fjárfesta fyrr á árinu. Skuldabréfið var að upphæð 300 milljónir evra og hafa viðskipti á eftirmarkaði gengið vel og álag yfir millibankavexti lækkað að sögn Arion.

Við valið á Arion banka sem banka ársins á Íslandi var einnig horft til þess árangurs sem bankinn hefur náð með hraðþjónustu sinni, lausnum eins og netbanka, nýjum hraðbönkum og ekki síst Arion appinu, sem nýtur mikilla vinsælda.

Áhersla Arion banka á að styrkja og efla nýsköpunarumhverfið á Íslandi í gegnum Startup Reykjavík og Startup Energy Reykjavík, sem og fjárfesting bankans um milljarð króna í Eyrum Sprotum, þykir einnig eftirtekarverð.

Smáraútibú Arion banka.
Smáraútibú Arion banka.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK