Sjá mikla tengimöguleika við Ryanair

Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW.
Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW.

Hugmyndir stjórnenda WOW air um að opna nýja útstöð utan Íslands eru fyrst og fremst hugsaðar sem viðbót við núverandi starfsemi svo hægt sé að vaxa hraðar en aðstæður á Keflavíkurflugvelli leyfa. Með því að velja Dublin, eins og Skúli Mogensen, forstjóri félagsins, hefur nefnt áður, nær félagið meðal annars tengimöguleikum við heimaflugvöll Ryanair, sem í dag er stærsta flugfélag Evrópu. Þetta segir Skúli í samtali við mbl.is.

„Dublin er mjög álitlegur kostur, þar er ört vaxandi flugvöllur sem er nú þegar öflugur höbb í allar áttir,“ segir Skúli, en hann tekur þó fram að enn hafi ekki verið tekin ákvörðun hvar flugfélagið myndi opna nýjar starstöðvar.

Vilja þróa viðskiptamódelið til Evrópu

Skúli segist telja gríðarleg tækifæri felast í því að þróa áfram núverandi viðskiptamódel sem byggi á lággjaldaflugi, eins og þekkist innan Evrópu og Ameríku, en færa það á lengri flugleiðir. Segir hann að ekkert lággjaldaflugfélag í dag sé að færa sig á þennan markað nema WOW og Norwegian air. „Það er stórt tækifæri að þróa þetta áfram og það er það sem við ætlum að gera,“ segir hann.

Frétt mbl.is: WOW skoðar flutning til Dublin

Fyrsta skrefið í þessa átt er að sækja um flugrekstrarleyfi í viðkomandi landi, en Skúli segir að töluverður undirbúningur fari í það. Aðspurður hvenær gæti orðið að þessari útvíkkun segir hann að raunhæft sé að miða allavega við 2 ár. Segir hann það liggja fyrir að miðað við uppbyggingaráform Keflavíkurflugvallar verði orðið illviðráðanlegt frá og með 2017-2018 að stækka áfram bara í Keflavík.

Brátt munu þrjár breiðþotur af gerðinni Airbus A330-300 bætast í …
Brátt munu þrjár breiðþotur af gerðinni Airbus A330-300 bætast í flugflota WOW air. Við það mun sætaframboð WOW air tvöfaldast á milli ára.

Segir Skúli að hægt sé að nýta vörumerkið WOW, flugflotann og innviðina til að halda áfram að vaxa á erlendri grundu, með starfsemi sem væri með öllu óháð Íslandi.

Ryanair með 84 bein flug frá Dublin

Aðspurður af hverju félagið horfi til Dublin segir Skúli að borgin sé álitlegur kostur, þar sé ört stækkandi flugvöllur og tengingar í allar áttir. Þá bjóði flugvöllurinn upp á hagstæð kjör og góða þjónustu til viðbótar við að vera nálægt Íslandi. Bendir hann á að flugvöllurinn þar sé í dag kominn inn á topp 10 lista yfir stærstu velli álfunnar og bjóði einnig upp á fyrirfram vegabréfaskoðun í Dublin fyrir Bandaríkjaflug. Staðsetningin bjóði einnig upp á beint flug frá Dublin beint til Bandaríkjanna án viðkomu á Íslandi.

Játar hann því að ein af ástæðum þess að Dublin sé sérstaklega áhugaverður sé tengingin við Ryanair, en það hefur verið eitt af leiðandi lágfargjaldaflugfélögum Evrópu undanfarinn áratug. Segir Skúli að félagið sé með 84 bein flug frá flugvellinum. „Þetta er gríðarlegur fjöldi fluga sem er hægt að tengja við.“

Ætla að tvöfalda farþegafjöldann í ár

Skúli segir að félagið ætli sér í ár að tvöfalda farþegafjöldann og fara í rúmlega 1,5 milljón farþega í gegnum Keflavík. Hann vill ekki segja um áætlanir lengra fram í tímann, en aðspurður hvort núverandi rekstur eða aukið hlutafé eigi að standa á bak við vöxtinn segir hann að gert sé ráð fyrir að reksturinn eigi að duga fyrir því. „Það gengur svo vel, við ættum að geta staðið undir áframhaldandi stækkun í bili,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK