Fjárfest fyrir 76 milljarða

Erlendir aðilar hafa selt erlendan gjaldeyri að jafnvirði um 76,1 milljarð kr. til landsins á síðasta ári vegna fjárfestingar sem skráð hefur verið sem nýfjárfesting í samræmi við lög um gjaldeyrismál. Þar vegur þyngst fjárfesting í íslenskum ríkisskuldabréfum, sem nemur 54 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Sæmundssyni, þingmanni Framsóknarflokksins, um innflæði gjaldeyris.

Fram kemur í svarinu, að ráðuneytið hafi óskað eftir upplýsingum frá Seðlabanka Íslands til þess að svara fyrirspurninni. Upplýsingar bankans um gjaldeyrisviðskipti einskorðist við það innflæði gjaldeyris sem hafi komið inn í landið eftir svokallaðri „nýfjárfestingarleið“ í skilningi um gjaldeyrismál, og fyrir tilstilli gjaldeyrisútboðs Seðlabankans.

„Í nýfjárfestingu felst sú ívilnun að fjárfestar, innlendir sem og erlendir, geta komið til landsins með erlendan gjaldeyri og fjárfest hérlendis án þess að festast með fjármuni fjárfestingarinnar vegna þeirra takmarkana á gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnshreyfingum sem til eru komnar í lögunum. Nýfjárfesting var þannig fyrsta skrefið í losun gjaldeyrishafta. Skráð nýfjárfesting er stundum nefnd gulur miði í daglegu tali,“ segir á vef Seðlabankans.

Í svari ráðherra segir jafnframt, að í febrúar 2015 hafi verið haldin síðustu gjaldeyrisútboð Seðlabankans samkvæmt fjárfestingarleið og ríkisverðbréfaleið þar sem tilboðum að fjárhæð 60,7 milljónum evra var tekið, 2,5 milljóna evra í ríkisverðbréf og 58,2 milljóna evra í fjárfestingarleiðinni. Samþykkt tilboð voru tekin á sama verði í hvorri leið fyrir sig, 195 kr. fyrir hverja evru í fjárfestingarleiðinni og 178 kr. fyrir evru í ríkisverðbréfaleiðinni.

Samtals er því um að ræða 11,8 milljarða kr.

Þeir fjármunir sem komu inn í gegnum fjárfestingarleiðina skiptast með eftirfarandi hætti: Hlutabréf 17,4 milljónir evra, skuldabréf 33,3 milljónir evra og fasteignir 7,5 milljónir evra. Fjárfestar sem tóku þátt í útboði fjárfestingarleiðar þurftu að auki að selja hjá við­skipta­banka jafnháa fjárhæð gjaldeyris og þeir fengu samþykkta í útboðinu. Heildarinnflæði gjaldeyris í tengslum við fjárfestingu samkvæmt fjárfestingarleiðinni er því 116,4 milljónir evra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK