Hagnaður Icelandair jókst um 67%

Björgólfur Jóhannsson, forstjór Icelandair Group.
Björgólfur Jóhannsson, forstjór Icelandair Group. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Afkoma Icelandair Group á síðasta ári var betri en áætlanir stjórnenda gerðu ráð fyrir sökum margra samverkandi þátta. Má þar helst nefna lækkandi eldsneytisverð og aukna eftirspurn á Norður-Atlantshafsmarkaðinum auk þess sem nýting á hótelherbergjum hefur aukist talsvert milli ára.

Ársuppgjör félagsins var birt eftir lokun markaða í gær en þar kemur fram að hagnaður jókst um 67 prósent milli ára og nam 111,2 milljónum Bandaríkjadala, sem jafngildir rúmum 14 milljörðum íslenskra króna.

EBITDA félagsins var við efri mörk síðustu afkomuspár og nam 219 milljónum Bandaríkjadala samanborið við 154,3 milljónir dala árið 2014. EBITDA á fjórða ársfjórðungi var jákvæð um 20,1 milljón dala en hún var neikvæð um 1,4 milljónir dala á sama tímabili árið 2014.

Eiginfjárhlutfall batnaði milli ára var 47 prósent í árslok 2015 samanborið við 43 prósent í árslok 2014. Handbært fé umfram vaxtaberandi skuldir var 148,6 milljónir dala í árslok.

3,5 milljarða arðgreiðsla

Stjórn Icelandair Group hefur lagt til að 3,5 milljarða króna arður verði greiddur til hluthafa á árinu 2016 en það samsvarar 0,7 krónum á hvern hlut. Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti hluthafinn með 14,69 prósent hlut.

Í afkomutilkynningu segir að horfur fyrir næsta ár séu góðar. Heildarframboðsaukning milli ára verður 24 prósent og gerir EBITDA-spá ráð fyrir að EBITDA verði á bilinu 245 til 250 milljónir Bandaríkjadala.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK