Spörum okkur milljarða í bensín

Lægra bensínverð hefur sparað íslenskum heimilum umtalsverðar fjárhæðir.
Lægra bensínverð hefur sparað íslenskum heimilum umtalsverðar fjárhæðir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Íslensk heimili spöruðu um sjö milljarða króna á verðlækkun bensínlítrans á síðasta ári. Það jafngildir um 21 þúsund krónum á hvern einasta Íslending.

Þetta kemur fram í Markaðspunktum Greiningardeildar Arion banka og er miðað við þær forsendur að rekstur bifreiða nemi í kringum ellefu prósentum af neyslu íslenskra heimila. Ef miðað er við að eldsneyti séu um helmingur kostnaðarins við rekstur bifreiðar fæst út fyrrgreindur sjö milljarða sparnaður.

Sparnaður og raftæki

Frá miðbiki ársins 2014 hefur verð á tunnu af Brent hráolíu, mælt í dollurum, lækkað um 70 prósent. Líkt og Greiningardeildin hefur áður bent á endurspeglast verðlækkun hráolíu ekki að fullu í verði á bensínlítra við dæluna enda stendur hráolía aðeins að litlum hluta undir heildarverðinu.

Engu að síður hefur verð á bensínlítra lækkað um 23 prósent frá júní 2014. Slík lækkun skiptir töluverðu máli fyrir íslensk heimili, en rekstur bifreiða nemur í kringum 11 prósentum af neyslu þeirra samkvæmt þjóðhagsreikningum, líkt og áður segir.

Vísbendingar eru um að hluti þessa sjö milljarða króna óbeina sparnaðar hafi farið í beinan sparnað, en hann hefur aukist skv. nýjustu Peningamálum. Aftur á móti hefur einnig verið mikil aukning í utanlandsferðum, raftækjasölu og bílasölu, sem skýrist mögulega að hluta af lægra olíuverði.

Eldsneytisverð vegur þungt í vísitölu neysluverðs (VNV), eða 3,7%. Til samanburðar má nefna að föt og skór vega 4,5% og rafmagn og hiti 3,4%. Lækkun olíuverðs hefur gegnt lykilhlutverki í að halda aftur af verðbólguþrýstingi undanfarna mánuði.

Þannig hefur lækkun olíuverðs, ásamt reyndar verðlækkun annarra hrávara á heimsmarkaði og styrkingu krónunnar, skapað svigrúm fyrir fyrirtæki til að takast á við þær miklu launahækkanir er samið var um á síðasta ári í stað þess að velta þeim beint út í verðlagið.

Ef bensínverð hefði haldist óbreytt frá ársbyrjun 2014 hefði verðbólgan mælst ívið meiri að mati Greiningardeildar Arion og farið yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans á seinni hluta síðasta árs.

Þá hefur olíuverðslækkun einnig bein áhrif á efnahagsreikning fjölmargra íslenskra heimila í gegnum þannig verðtryggingu húsnæðislána.

Lækkun olíuverðs heldur aftur af verðbólgu þannig að verðtryggð húsnæðislán hækka minna en ella. Þessu er öfugt farið ef olíuverð hækkar.

Greiningardeild Arion banka hefur í dæmaskyni reiknað út greiðslubyrði 40 ára verðtryggðra jafngreiðslulána sem bera sambærilega vexti og Íbúðalánasjóður hefur boðið upp á hverju sinni. 

Ef t.d. er litið á 15 milljón króna lán sem tekið var þann 1. janúar 2005 hefði það staðið í 23,3 milljónum í dag ef olíuverð hefði haldist óbreytt frá ársbyrjun 2014, en ekki 23,1 milljón líkt og raunin er. Heimilið hefði þá verið búið að greiða 12 þúsund krónum meira í heildina hefði olíuverð haldist óbreytt frá þessum tíma.

Yfirlit yfir breytingar á lánum ef olíuverð hefði haldist óbreytt …
Yfirlit yfir breytingar á lánum ef olíuverð hefði haldist óbreytt frá ársbyrjun 2014. Í töflunni sýnir efri talan samanlagða lækkun greiðslu, þ.e. mismuninn á því sem greitt hefði verið ef olíuverð hefði ekki lækkað og því sem greitt er í raun. Neðri talan sýnir aftur á móti lækkun eftirstöðva lánsins sem rekja má til olíuverðslækkunar. Mynd/Greiningardeild Arion

Full ástæða til að fylgjast með

„Olíuverðslækkunin eykur þannig veðrými heimilanna þar sem eigið fé þeirra í eigninni er hærra en ella,“ segir Greiningardeild Arion.

Upplýsingastofnun Bandaríkjanna um orkumál, EIA, telur að olíuverð taki að þokast upp á við á árinu og verði í kringum 40 dollara á tunnu en hækki í 52 dollara árið 2017. Þá gæti olíuverð hækkað töluvert meira á árinu ef dregið verður hressilega úr framboði.

Greiningardeild Arion bendir á að slík hækkun, jafnvel þótt lítil sé, muni ýta undir verðbólguþrýsting, bæði beint og óbeint, og draga úr ráðstöfunartekjum heimilanna.

„Ef olíuverð hækkar, eða lækkar a.m.k. ekki, meira má búast við að jákvæðu áhrifin á verðbólgu og þar með verðtryggð lán taki að fjara út. Það er því full ástæða fyrir heimili þessa lands að halda áfram að fylgjast grannt með þróun olíuverðs í heiminum,“ segir Greiningardeild Arion.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK