Fasteignaverð tvöfaldast í Eyjum

Fasteignaverð í Vestmannaeyjum hefur rokið upp á síðustu sjö árum.
Fasteignaverð í Vestmannaeyjum hefur rokið upp á síðustu sjö árum. Ljósmynd Skúli Már Gunnarsson

Þegar litið er á þróun fasteignaverðs utan höfuðborgarsvæðisins eru Vestmannaeyjar algerlega í sérflokki þar sem verðið hefur tvöfaldast á síðastliðnum sjö árum. Fermetraverð á Akureyri er um 75% af fermetraverðinu í Reykjavík.

Þetta kemur fram í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans þar sem litið er á stöðuna á fasteignamarkaðnum utan höfuðborgarsvæðisins.

Þar eru viðskipti að jafnaði mun strjálli og erfiðara er því að fá raunverulegar vísbendingar um verðþróun. Strjál viðskipti leiða til þess að sveiflur í mánaðarlegum verðmælingum eru mun meiri en á höfuðborgarsvæðinu.

Um það bil 64% landsmanna búa á höfuðborgarsvæðinu en tæplega helmingur íbúa utan höfuðborgarsvæðisins býr í 6 stærstu bæjunum, eða um 17% landsmanna. Rúmlega 80% landsmanna býr því á höfuðborgarsvæðinu og í 6 stærstu bæjunum.

Verðlækkun í Árborg

Frá þriðja ársfjórðungi 2008 til fjórða ársfjórðungs 2015 hefur fasteignaverð lækkað í Árborg og er nær óbreytt í Reykjanesbæ. Á hinum stöðunum, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri, í Fjarðabyggð og á Akranesi hefur verðið hækkað með svipuðum hætti, þó eilítið minna í Fjarðabyggð.

Þessar tölur sýna að verðþróunin á höfuðborgarsvæðinu hefur í stórum dráttum ekki verið mjög frábrugðin því sem gerist víða annarsstaðar.

Fermetraverð er hæst á Akureyri sé litið til landsbyggðarinnar.
Fermetraverð er hæst á Akureyri sé litið til landsbyggðarinnar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Undir lok síðasta árs var fermetraverð alls húsnæðis í þessum bæjum hæst 232 þúsund krónur á Akureyri og lægst í Fjarðabyggð, eða um 125 þúsund krónur.

Þá hafa fjórir bæir fylgst nokkuð vel að í fermetraverði síðustu misseri og eru á svipuðu róli nú, þetta eru Reykjanesbær, Árborg, Akranes og Vestmannaeyjar. Ætla má að kostnaður við nýbyggingar sé nálægt 300 þúsund krónur á fermetrann og er það mun hærra en söluverð víðast hvar.

Sé litið á fasteignaverð á landsbyggðinni sem hlutfall af verðinu á höfuðborgarsvæðinu má sjá að fermetraverðið á Akureyri var um 75% af verðinu í Reykjavík undir lok síðasta árs.

Samkvæmt sömu aðferð var fermetraverð í hinum bæjunum töluvert lægra en samt nokkuð svipað í flestum þeirra, eða ríflega helmingur þess sem gerist í Reykjavík. Verð í Fjarðabyggð var eilítið lægra.

Hærra fermetraverð á sérbýli á landsbyggðinni

Í Reykjavík var fermetraverð fjölbýlis um 18% hærra en á sérbýli á árinu 2015. Þessu er allt öðru vísi farið í stærri bæjum úti á landi.

Það er einungis í Fjarðabyggð sem fjölbýlið er verulega dýrara, eða 19%. Fjölbýli er 4% dýrara á Akureyri en í hinum bæjunum er fermetraverð á sérbýli hærra en á fjölbýli, mest 9% hærra á Akranesi.

Niðurstaðan er því sú að verðþróun í flestum bæjanna er mjög sambærileg við höfuðborgarsvæðið. Fermetraverð á Akureyri er um 75% af því sem er í Reykjavík en í flestum bæjanna er það u.þ.b. helmingur af verði í Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK