Útlitið er ekki alveg svart

Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði og fjármálum við London School …
Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði og fjármálum við London School of Economics (LSE). Rósa Braga

Íslendingar leggja of mikla áherslu á magn menntunar en of litla á gæðin. Stjórnvöld ættu að reyna lágmarka söluhagnað við einkavæðingu á bönkunum og vaxtaákvarðanir í samræmi við verðbólgumarkmið eru ekki sniðugar á Íslandi. Þetta eru nokkrar af hugleiðingum Jóns Daníelssonar, prófessors í hagfræði við London School of Economics, um íslenskt efnahagslíf.

Jón var með erindi á ársfundi Samtaka atvinnulífsins í dag undir yfirskriftinni „Framtíðarríkið Ísland: Peningastefna og ríkisfjármál“. Jóni tókst að snerta á flestum málefnum í stuttu erindi og koma með fjölmargar ábendingar til íslenskra stjórnvalda.

Þarf að fjárfesta í mannauðinum

Þegar litið er til síðustu 55 ára situr Ísland í 6. sæti yfir áhættusömustu þjóðir OECD. Jón sagði áfallið eftir áhættu þó ekki skipta höfuðmáli. Viðbrögðin þar á eftir eru aðalmálið.

Hann benti á að hagvöxtinn á Íslandi mætti rekja til auðlinda á borð við fisksins, túrismans og álsins. Hagvöxturinn er ekki vegna mannauðsins.

Ávöxtun vegna menntunar er minnst á Íslandi þegar litið er til Evrópu. Það borgar sig frekar að hætta námi á Íslandi en að halda því áfram. Það skilar meiri tekjum. Þetta á ekki við í neinu öðru Evrópulandi. Jón sagði nemendur sína í London fá svipuð laun við útskrift og íslenskir jafningjar þeirra. Eftir tuttugu ár getur sá sem er í London hins vegar reiknað með að vera með fimmfalt hærri laun en sá sem heldur sig á Íslandi. Þetta er vegna þess að Íslendingar leggja of mikla áherslu á magn menntunar en ekki gæði hennar, segir Jón.

„Kannski er þetta allt í lagi,“ sagði Jón og bætti við að Ísland hefði verið með ríkari þjóðum frá því hann sjálfur kom í heiminn. „Kannski er þetta í lagi ef við viljum ekki stöðugleika,“ sagði hann. 

Lágmarka skammtímahagnað

Jón ræddi um fyrirhugaða einkavæðingu bankanna og sagði stjórnvöld hafa tvo möguleika. Annars vegar að hámarka hagnað af einkavæðingunni sjálfri eða hámarka framtíðar efnahagslegan ávinning. Stjórnvöld standi nú frammi fyrir einstöku tækifæri til að auka fjölbreytni og stuðla að aukinni samkeppni á fjármálamarkaði. Það gæti skilað auknum skatttekjum og fjölbreyttara atvinnulífi til framtíðar.

Hvað ríkisfjármálin varðar sagði Jón að stefnan hafi verið skynsöm á liðnum árum. Leggur hann til að Íslendingar gangi einu skrefi lengra og setji upp sjóð sem lagt er í þegar vel gengur og notaður er til fjárfestinga erlendis. Úr honum sé hægt að taka þegar illa gengur. Þetta sé víða gert hjá litlum löndum til að vega á móti sveiflum í efnahagslífinu og til þess fallið að stuðla að meiri stöðugleika.

Vill lægri vexti

Að lokum gerði hann athugasemd við íslenska vaxtastjórnun sem er framkvæmd í tengslum við verðbólgumarkmið. „Hugmyndin er sú að hærri vextir draga úr atvinnustarfsemi og verðbólgu. Lægri vextir virka í hina áttina. Svona líkan virkar mjög vel á stór lönd líkt og Bandaríkin þar sem innflæði fjármagns skiptir ekki máli.“

Að vera með jöfnu sem þessa sé hins vegar óráð á Íslandi. Þegar vextir eru hækkaðir flæða peningar inn til landsins og það eykur þenslu. „Vextir eru of háir á Íslandi og hafa verið of háir. Ein stærsta ástæða hrunsins árið 2008 er peningastefnan fyrir hrunið og að vextir hafi verið of háir,“ sagði Jón. „Ég skil ekki af hverju vextir eru jafn háir og þeir eru í dag og skil alls ekki af hverju þeir voru svona háir eftir hrun,“ sagði Jón.

Hann sagði lægri vexti góða leið til að takmarka fjármagnsinnflæði. „Þegar þú ert með lægri vexti er minni ávinningur af því að koma með peningana.“

Bindiskylda sniðug á Íslandi

Hann telur skynsamlegra að nota t.d. vaxtalausa bindiskyldu sem stjórntæki. „Bindiskylda hefur vont orð á sér meðal hagfræðinga,“ sagði Jón og vísaði til þess að hún virkar illa á stór hagkerfi líkt og Bandaríkin sem eru tiltölulega flókin. Bindiskylda virki hins vegar vel í litlu og einföldu hagkerfi líkt og á Íslandi. 

Annað sem hefur verið rætt um er að nota eigið fé banka sem stjórntæki fyrir peningastefnu; þ.e. að auka eiginfjárkröfur bankanna til að stjórna peningamagninu í umferð. Jóni hugnast þetta ekki. „Það er óráðlegt að gera slíkt vegna þess að þá er sama stjórntækið, þ.e. eigið fé banka, notað fyrir peningastefnu, þjóðhagsvarúð og eindarvarúð,“ sagði hann.

Seðlabankinn á ekki að vera lögregla

Þá telur hann girðingar gegn innflæði ekki vera sniðugar. Auðvelt er að komast fram hjá þeim og stjórnvöld þurfa stórt og mikið eftirlitskerfi til að hindra það.

Þegar Seðlabankinn þurfi að starfa sem lögregla á markaði grefur það undan trúverðugleika stofnunarinnar og minnkar möguleika hennar á að framfylgja trúverðugri peningastefnu.

Óstöðugleiki eða ekki?

„Þegar við hugsum til framtíðar getum við verið með áframhaldandi óstöðugleika. Og þetta er ekki eins svart og menn kannski halda,“ sagði Jón léttur í lokin. „Við búum í landi sem er eitt ríkasta land í heimi hvort eð er. Ísland mun áfram verða ríkt.“

„Það er vandamál hvað ávöxtun á menntun er lítil. En á móti kemur að margir myndu segja það vera gott vegna þess að það stuðlar að jöfnuði. En við munum missa fólk úr landi og við munum missa fyrirtæki til útlanda. Kannski verðum við þá heppin og finnum nýjar auðlindir og verðum áfram mjög rík.“

„Við getum líka valið langtímastöðugleikastefnu sem ég held að muni skila meiri og auðugari hagvexti. Meira öryggi fyrir Ísland og búa til hærri ávöxtun á menntun sem leyfir fólki að vera áfram á Íslandi auk þess að skapa forsendur fyrir hátækniiðnað,“ sagði Jón Daníelsson.

Íslendingar þurfa að leggja meiri áherslu á gæði menntunar.
Íslendingar þurfa að leggja meiri áherslu á gæði menntunar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Stjórnvöld ættu að huga að langtímamarkmiði sínu við einkavæðingu bankanna.
Stjórnvöld ættu að huga að langtímamarkmiði sínu við einkavæðingu bankanna. Samsett mynd/Eggert
Jón segir Seðlabankann ekki eiga að starfa sem lögreglu.
Jón segir Seðlabankann ekki eiga að starfa sem lögreglu. mbl.is/Árni Sæberg
Halda þarf hugviti á Íslandi til að byggja upp hluti …
Halda þarf hugviti á Íslandi til að byggja upp hluti á borð við hátækniðnað.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK