Ekki viss um sök Kristjáns

Kristján Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sameinaða lífeyrissjóðsins, var skráður fyrir tveimur …
Kristján Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sameinaða lífeyrissjóðsins, var skráður fyrir tveimur aflandsfélögum. Skjáskot úr Kastljósi

Lögfræðingur mun fara yfir mál framkvæmdastjóra Sameinaða lífeyrissjóðsins á stjórnarfundi á morgun. Stjórnarformaður telur ekki víst að framkvæmdastjórinn hafi gerst brotlegur með því að tilkynna stjórninni ekki um tvö aflandsfélög.

Í Kastljósi í gær kom fram að Kristján Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sameinaða lífeyrissjóðsins, lét stjórn lífeyrissjóðsins ekki vita af tveimur aflandsfélögum sem hann var skráður fyrir. Annað var Mika Asset, sem var skráð í Panama 2007 í gegnum Landsbankann í Lúxemborg. Hitt var Fulcas Inc. sem stofnað var í Panama 2009 í gegnum Nordea-bankann.

Kristján Örn hefur stýrt Sameinaða lífeyrissjóðnum frá árinu 2005.

Mbl hefur sent fyrirspurn á Kristján Örn um málið en hann hefur ekki svarað. Haft var eftir Kristjáni Erni í Kastljósi að félögin hefðu verið hugsuð fyrir erlenda fjárfestingu en ekki verið notuð.

Stjórnarfundur hjá lífeyrissjóðnum fer fram í fyrramálið og verður ársfundur síðar um daginn. Jón Bjarni Gunnarsson, stjórnarformaður, segir að mál Kristjáns verði tekið þar upp.

Þangað til mun stjórnin ekki taka neina ákvörðun.

Ekki viss um tilkynningarskyldu

Jón Bjarni gerir athugasemd við umfjöllun gærdagsins að því leyti að fullyrt hafi verið að Kristjáni hafi borið að tilkynna stjórninni um félögin tvö. Hann segist ekki endilega vera sammála þessu.

Fjallað er um atvinnuþátttöku framkvæmdastjóra lífeyrissjóðs í 6. mgr. 31. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Þar segir að framkvæmdastjóra sé óheimilt að taka þátt í atvinnurekstri nema að fengnu leyfi stjórnar. Þá segir að eignarhlutur í fyrirtæki teljist þátttaka í atvinnurekstri nema um sé að ræða óverulegan hlut sem ekki veitir bein áhrif á stjórn þess.

Líkt og áður segir hefur Kristján vísað til þess að félögin hafi aldrei verið notuð. Jón Bjarni bendir á þessa skýringu og bætir við að þess konar félag geti varla talist „mjög aktívt“. „Við fáum utanaðkomandi lögfræðing til að túlka þessa lagabálka og þetta verður tekið fyrir á fundi á morgun,“ segir Jón Bjarni.

Siðferðileg spurning

„Svo er það náttúrulega tíðarandinn,“ segir Jón Bjarni. „Þetta þótti jafn eðlilegt á þessum tíma og það þykir óeðlilegt í dag,“ segir hann. „Það var ekki ólöglegt að stofna svona félög. Ef þú fórst eftir leikreglunum var þetta löglegt. En síðan geta menn haft skoðun á því hvort það hafi verið siðlaust,“ segir hann.

Aðspurður hvort stjórnin geti sætt sig við áframhaldandi störf Kristjáns verði það niðurstaðan að honum hafi ekki borið að segja frá félögunum vill Jón Bjarni ekki svara því.

„Þetta verður fyrst og fremst þessi móralska spurning. Þarna er verið að höndla með miklar fjárhæðir í eigu þúsunda manna og þá verður að vera ákveðið siðferði í kringum það.“

Kári sagði upp af svipuðum sökum

Líkt og fram hefur komið hefur Kári Arnór Kárason, sagt af sér sem framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs vegna sambærilegs máls.

Kári var skráður fyrir tveimur aflandsfélögum, annars vegar Hola Holding, sem Kaupþing stofnaði í Lúxemborg árið 1999, og hins vegar Utvortis Ltd., sem MP banki stofnaði á Bresku Jómfrúareyjunum árið 2004. Í Kastljósi í gær kom fram að Hola Holding fékk tuga milljóna króna lán frá Kaupþingi og Utvortis velti tugum milljóna króna á þriggja ára starfstíma sínum.

Í yfirlýsingu sem fylgdi starfslokum Kára sagðist hann hvorki hafa lagt fjármuni né haft ávinning af fyrrnefnda félaginu og ekki hafa notað síðarnefnda félagið.

Kristján hefur stjórnað sjóðnum frá 2005.
Kristján hefur stjórnað sjóðnum frá 2005.
Jón Bjarni Gunnarsson, stjórnarformaður Sameinaða lífeyrissjóðsins.
Jón Bjarni Gunnarsson, stjórnarformaður Sameinaða lífeyrissjóðsins. Mynd/Sameinaði lífeyrissjóðurinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK