Fékk ekki hlutdeild í ISIS kröfu

Lögmannsstofan Juris tapaði máli gegn þrotabúi fjárfestisins Guðmundar A. Birgissonar, sem kenndur við bæinn Núpa í Ölfusi, í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Lögmannsstofan hafði lýst 12,8 milljóna króna kröfu í þrotabúið og var henni mótmælt. Krafan var vegna ætlaðrar innheimtuþóknunar Juris af kröfu Guðmundar í þrotabú breska félagsins ISIS Investment Ltd. 

Guðmundur kom víða við í viðskiptalífinu fyrir hrun og var m.a. einn hluthafa í félaginu Lífsvali, sem átti tugi jarða víða um landið. Þá var hann t.d. hluthafi í Bang & Olfusen á Íslandi, Hótel Borg.

Málsatvik voru með þeim hætti að Juris tók að sér árið 2010 að lýsa kröfu Guðmundar í þrotabú ISIS. Hún var að fjárhæð 1,8 milljónir punda, eða sem jafngildir 326 milljónum króna á núverandi gengi.

Í innheimtusamningi átti Juris rétt á 5% af því fé sem myndi greiðast upp í kröfuna fyrir sína vinnu.

Kom ekki að sölusamningnum

Árið 2013 var Guðmundur úrskurður gjaldþrota og í kjölfarið gerði skiptastjóri þrotabús hans samning við Mön Investment og Kaupþing um kaup á kröfunni fyrir rúmar 257 milljónir króna. Samkvæmt upphaflegum samningi átti greiðslan að renna inn á reikning Juris.

Á árinu 2014 var hins vegar gerður viðauki við samninginn og greiðslufyrirkomulaginu breytt. Greiðsla rann að hluta til Kaupþings upp í skuldir, að hluta til Guðmundar og að lokum inn á reikning lögmannsstofu skiptastjóra.

Í framhaldinu lýsti Juris fyrrnefndri 12,8 milljóna króna kröfu í þrotabú Guðmundar, sem er 5% af 257 milljóna króna kaupverðinu. Taldi lögmannsstofan kröfu sína vera forgangskröfu við gjaldþrotaskiptin.

Skiptastjóri Guðmundar mótmælti þessu þar sem Juris hafði ekki komið að viðskiptunum.

Sérhæfð lögmannsstofa verður að bera hallann

Héraðsdómur féllst ekki á kröfu Juris. Einföld greiðslufyrirmæli í upphaflegum sölusamning voru ekki talin nægileg. Þá vísaði dómari til sérfræðiþekkingar Juris. Um væri að ræða lögmannsstofu sem er sérhæfð í stofnun veðsamninga og tryggingaráðstöfunum.

Hún verði að bera hallann af því að hafa ekki með fullnægjandi hætti gætt að réttindum sínum við alla samningagerð.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK