Héldu greiðslufærni vegna lána frá Glitni

Bræðurnir Karl og Steingrímur Wernerssyni voru aðaleigendur bæði Milestone og …
Bræðurnir Karl og Steingrímur Wernerssyni voru aðaleigendur bæði Milestone og Lyf og heilsu á þessum tíma. Milestone var talið gjaldfært fram til falls Glitnis þar sem félagið hafði ítrekað fengið fyrirgreiðslu frá bankanum til að standa við skuldbindingar sínar.

Fjárfestingafélagið Milestone var greiðslufært fram til 7. október árið 2008 eða þangað til Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar í Glitni banka  og skilanefnd var skipuð. Vegna þessa var kröfu þrotabús Milestone um riftun greiðsla frá Milestone til Lyfja og heilsu frá 1. janúar 2008 til 2. september sama ár að upphæð 232 milljónir hafnað af Hæstarétti.

Dæmt var í málinu í dag, en þrotabúið taldi Milestone hafa verið ógjaldfært á umræddum tíma, meðal annars vegna þess að skuldir væru orðnar hærri en eignir.

Meðal þess sem stuðst var við í málinu var matsgerð Gylfa Zoega og Eggerts Þórs Kristóferssonar. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að markaðsvirði eigna félagsins varð minna en skuldir undir lok fyrsta ársfjórðungs eða byrjun annars ársfjórðungs árið 2008.  Varðandi greiðslufærni kemur fram að Milestone hafi átt „í erfiðleikum með að standa í skilum með skuldir sínar og dótturfélaga a.m.k. frá nóvember 2007“.

Meðal annars er vísað í að fjármögnun láns Morgan Stanley í lok árs 2007 sýni að Glitnir og félög tengd Milestone hafi gert félaginu kleift að standa í skilum við ótengda aðila. Á fyrstu mánuðum ársins 2008 hafi svo enn komið í ljós takmarkað greiðsluhæfi samstæðunnar. Er það orðað þannig að „ Milestone ehf. hafði takmarkaða greiðslufærni í lok árs 2007 og á fyrri hluta 2008 án aðstoðar Glitnis banka og dótturfélaga sinna“.

Seinna í matsgerðinni segir: „Greiðslufærni félagsins var undir lok árs 2007 orðin takmörkuð og í lok febrúar var félagið orðið ógreiðslufært án fyrirgreiðslu Glitnis banka og með aðstoð dótturfélaga Milestone.“ Fall Glitnis var svo lokapunkturinn í þessum efnum. Eftir það það „gat Glitnir banki ekki veitt Milestone ehf. þá fyrirgreiðslu sem nauðsynleg var til að tryggja greiðslufærni Milestone.“

Kemst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ógerlegt þyki að staðhæfa að ógreiðslufærni Milestone skuli miða við fyrra tímamark en fall Glitnis vegna þess að félagið hafi náð í reynd að fjármagna sig „með yfirdráttarlánum og lánum frá tengdum aðilum.“ Er Lyf og heilsa því sýknað af öllum kröfum og þrotabúið dæmt til að greiða 3 milljónir í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK