Rio Tinto tapaði 249 milljónum

Álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík.
Álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík. mbl.is/Ómar Óskarsson

Rio Tinto Alcan á Íslandi, sem rekur álverið í Straumsvík, tapaði tveimur milljónum dala, sem jafngildir um 249 milljónum króna, í fyrra. Markaðsaðstæður reyndust fyrirtækinu óhagstæðar en söluverð afurða þess lækkaði um 28% á árinu. Þá lækkuðu sölutekjur um tæp 10% á milli ára.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í inngangsorðum Rannveigar Rist, forstjóra Rio Tinto Alcan á Íslandi, í nýrri skýrslu fyrirtækisins, Grænt bókhald fyrir árið 2015.

Fyrirtækið skilaði hagnaði upp á 1,9 milljónir dala, um 235 milljónir króna, eftir skatta árið 2014, sem var langtum minni en hangaður annarra íslenskra álframleiðenda. Á árunum þar á undan, 2012 og 2013, varð tap á rekstrinum, samtals um fimm milljarðar króna. Árið 2012 var fyrirtækið í fyrsta sinn rekið með tapi frá því að Rannveig Rist tók við sem forstjóri þess í byrjun árs 1997. Þess má geta að samanlagður hagnaður félagsins á árunum 2007 til 2012 var um 150 milljónir dala eða um 18,6 milljarðar króna á núverandi gengi.

Rannveig tekur fram að þó að rekstur álversins hafi ekki skilað umtalsverðum hagnaði síðan 2011 skili hann eftir sem áður umtalsverðum gjaldeyristekjum til íslenska hagkerfisins. Hreinar gjaldeyristekjur Íslands af rekstri fyrirtækisins séu að jafnaði um það bil tveir milljarðar króna á mánuði. Eins heyri fyrirtækið undir almennar skattareglur hér á landi og njóti þar engra sérkjara. Þá sé fyrirtækið ekki fjármagnað með lánum frá móðurfélagi og eiginfjárhlutfallið sé yfir 80%.

Framleiðslan dróst saman

Fram kemur í inngangsorðunum að framleiðsla kerskála ISAL hafi dregist aðeins saman í fyrra. Framleidd hafi verið 200.501 tonn eða fimm þúsund tonnum minna en árið áður, 2014. Skýringin sé einkum sú að straumhækkun hafi valdið rekstrartruflunum og því hafi þurft að draga tímabundið úr henni. Einnig hafi þurft að hægja á framleiðslu vegna yfirvinnubanns starfsmanna félagsins, eins og kunnugt er. Til standi að halda áfram að hækka straum á þessu ári.

Rannveig nefnir jafnframt að þó svo að aðeins hafi dregið úr framleiðslu á milli ára hafi hún engu að síður verið sú næstmesta í sögu fyrirtækisins.

Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi.
Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK