Bílainnflutningur jókst um 75%

Reiknað er með að vöxtur einkaneyslu komi að langmestu leyti …
Reiknað er með að vöxtur einkaneyslu komi að langmestu leyti fram í aukinni neyslu á varanlegum neysluvörum, þ.m.t. bifreiðum, ásamt tíðari ferðalögum til útlanda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hagfræðideild Landsbankans spáir að hagvöxtur á þessu ári verði 5,4 prósent sem er talsvert meiri hagvöxtur en gert var ráð fyrir í þjóðhags- og verðbólguspá deildarinnar frá nóvember 2015.

Hagvöxtur verði að meðaltali 4,3 prósent á árunum 2017 og 2018. Verðbólguhorfur eru nú taldar betri en áður og gert er ráð fyrir að verðbólga verði að meðaltali 1,9 prósent á þessu ári og að meðaltali 3,6 prósent á næstum tveimur árum.

Þetta kemur fram í uppfærðri þjóðhags- og verðbólguspá Hagfræðideildar Landsbankans sem birt var í dag. Spáin nær til ársloka 2018.

Mikill vöxtur í útflutningi ásamt verulega hagstæðri þróun erlendrar skuldastöðu þjóðarbúsins bendir til þess að krónan gæti styrkst nokkuð á spátímanum samkvæmt spánni.

Gert er ráð fyrir að húsnæðiskostnaður verði áfram ráðandi þáttur í þróun verðbólgu.

Dýrari bílar fluttir inn

Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs jókst bílainnflutningur um ríflega 75 prósent á milli ára þegar horft er til innflutningsverðmætis. Þetta er tvöfalt meiri aukning en á sama tímabili í fyrra. Svo virðist sem nú séu fluttir inn dýrari bílar en undanfarin misseri en meðalverðmæti innfluttra bifreiða hækkaði um tólf prósentustig milli ára, mælt á föstu gengi.

Reiknað er með að vöxtur einkaneyslu komi að langmestu leyti fram í aukinni neyslu á varanlegum neysluvörum, þ.m.t. bifreiðum, ásamt tíðari ferðalögum til útlanda. Hagvaxtaráhrif aukinnar einkaneyslu verða því minni en ella þar sem innflutningur eykst verulega á móti.

Gert er ráð fyrir að erlendum ferðamönnum fjölgi um 35 prósent á þessu ári, um fimmtán prósent á næsta ári og um tíu prósent árið 2018. Ef spáin gengur eftir munu tæplega 2,2 milljónir ferðamanna koma til landsins árið 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK