Kæru Lyfja og heilsu vísað frá

Lyf og heilsa.
Lyf og heilsa. mbl.is/Golli

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur vísað frá kröfum Lyfja og heilsu vegna þeirrar ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins að það hafi ekki forsendur til að aðhafast vegna framsals Glitnis á öllu hlutafé í Lyfju.

Áfrýjunarnefndin telur að ekki hafi verið sýnt fram á að samruninn tengist Lyfjum og heilsu beint eða sérstaklega eða að öðru leyti með þeim hætti að fyrirtækið geti átt rétt til aðildar að málinu.

Lyf og heilsa kærði 31. mars 2016 ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2016 til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Í ákvörðuninni komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að framsal Glitnis á öllum hlutum í Lyfju til ríkissjóðs fæli í sér samruna í skilningi 17. gr. samkeppnislaga og að eftirlitið hefði ekki forsendur til að aðhafast vegna samrunans.

Lyf og heilsa krafðist þess að ákvörðunin yrði felld úr gildi og samrunanum sett skilyrði um annars vegar sölu ríkisins á Lyfju innan tiltekins skamms tímafrests og  hins vegar skilyrði sem koma í veg fyrir þá hagsmunaárekstra sem leiða af eignarhaldi ríkisins á Lyfju.

Í úrskurði sínum bendir áfrýjunarnefndin meðal annars á að Lyf og heilsa hafi ekki nýtt sér þann möguleika sem fyrirtækinu var sérstaklega boðið upp á: að setja fram athugasemdir sínar við Samkeppniseftirlitið um samrunann á meðan málið var til meðferðar þar. Hefur það áhrif á það hversu sérstaka og verulega hagsmuni fyrirtækið hafi af samrunanum.

Var niðurstaðan sú, eins og áður sagði, að Lyf og heilsa hafi ekki sýnt fram á að samruninn tengist fyrirtækinu beint og sérstaklega eða að öðru leyti með þeim hætti að það geti átt rétt til aðildar að málinu. Ber því að vísa því frá áfrýjunarnefndinni.

Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála

Frétt mbl.is: Kæra samkeppniseftirlitið vegna framsalsins á Lyfju

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK