Níddist á keppinaut í Keflavík

Hótel Keflavík.
Hótel Keflavík. Mynd af heimasíðu Booking.com

Neytendastofa hefur sektað Hótel Keflavík um 250 þúsund krónur vegna neikvæðrar umsagnar sem starfsmaður hótelsins ritaði á heimasíðu Flughótels Keflavíkur.

Flughótelið kvartaði undan athæfinu og segjast stjórnendur þess hafa öruggar heimildir fyrir því að starfsmaður Hótels Keflavíkur, helsta samkeppnisaðila fyrirtækisins í Reykjanesbæ, hafi í að minnsta kosti sextán tilvikum bókað herbergi á Flughótelinu fyrir hönd viðskiptavina sinna og skilið í kjölfarið eftir slæma umsögn á svæði hótelsins á heimasíðunni Expedia.com.

Þetta var gert þegar yfirbókað var á Hótel Keflavík. Starfsmaðurinn skildi eftir eigið netfang með bókununum. 

Starfsmenn Flughótelsins fóru að grennslast fyrir um málið eftir að óvenjulega margar slæmar athugasemdir bárust á vefsvæðinu og kannaði Expedia.com þá málið nánar. Leiddi það í ljós að a.m.k. átta mjög slæmar athugasemdir bárust frá umræddu netfangi.

Nýlega bárust þá fleiri ábendingar um sama athæfi og staðfesti Expedia.com að a.m.k. tvær athugasemdir til viðbótar tengdust umræddu netfangi.

Einungis fyrir viðskiptavini

Í ákvörðun Neytendastofu segir að umsagnir á bókunarvefnum séu einungis ætlaðar viðskiptavinum fyrirtækja en ekki keppinautum. Þeim sé ætlað að endurspegla reynslu viðskiptavina af þjónustunni.

Neytendastofa taldi að um væri að ræða óréttmæta og villandi viðskiptahætti sem væru til þess fallnir að hafa áhrif á eftirspurn þjónustu keppinautar. Neytendastofa taldi nauðsynlegt að banna háttsemina og lagði fyrrgreinda sekt á fyrirtækið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK