Englandsbanki reynir að róa fjárfesta

Mark Carney, bankastjóri Englandsbanka.
Mark Carney, bankastjóri Englandsbanka. AFP

Mark Carney, bankastjóri Englandsbanka, reyndi á blaðamannafundi í morgun að róa fjárfesta og fullvissa þá um að bankinn myndi ekki hika við að grípa til „viðeigandi“ aðgerða til þess að bregðast við þeirri stöðu sem komin er upp eftir að Bretar samþykktu að segja skilið við Evrópusambandið.

Hann sagðist eiga von á einhverjum „óróleika“ á fjármálamörkuðum í dag og á næstu dögum. „En við erum búin undir það.“

Hlutabréfavísitölur um allan heim lækkuðu skarpt þegar markaðir opnuðu í morgun en sem dæmi hríðféll FTSE 100-hlutabréfavísitalan í Lundúnum um 8,4% í fyrstu viðskiptum dagsins.

Carney sagði á blaðamannafundinum að það myndi taka Breta nokkurn tíma að stofna til nýrra sambanda við Evrópusambandið og heiminn.

Engin ástæða væri þó til þess að hafa miklar áhyggjur af stöðunni eins og er. Englandsbanki hefði „þolprófað“ bresku bankana. Þeir ættu að geta þolað mun verri aðstæður en þær sem við er að glíma nú um stundir.

Meginmarkmið Englandsbanka væri nú að tryggja fjármála- og peningalegan stöðugleika. Bankinn væri reiðubúinn og myndi ekki hika við að grípa til nauðsynlegra aðgerða til þess að tryggja hann, ef á þyrfti að halda.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK