Verðmæti Virgin rýrnað um þriðjung

Viðskiptajöfurinn Richard Branson.
Viðskiptajöfurinn Richard Branson. AFP

Richard Branson, eigandi viðskiptaveldisins Virgin, segir að verðmæti fyrirtækisins hafi dregist saman um þriðjung eftir að Bretar kusu að segja skilið við Evrópusambandið síðasta fimmtudag.

Hann segir jafnframt að fyrirtækið hafi, vegna óvissunnar í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar, hætt við að gera „mjög stóran samning“ sem hefði getað skapað þrjú þúsund störf í Bretlandi.

„Við erum ekki í verri stöðu en aðrir en mig grunar að við höfum tapað um þriðjungi af verðmæti okkar, sem er skelfilegt fyrir starfsfólk okkar,“ sagði hann í samtali við Good Morning TV í morgun.

Hlutabréf fyrirtækisins eru ekki skráð í kauphöll og því er erfitt fyrir utanaðkomandi að átta sig á því hversu mikið verðmæti þess hefur lækkað undanfarna daga.

Hlutabréf í bankanum Virgin Money, sem er að hluta til í eigu viðskiptaveldisins, hefur fallið um meira en 20% í verði frá því á föstudag.

„Þjóðin er á leið inn í kreppu,“ sagði Branson.

Fjármálagreinendur segja að um þrír milljarðar sterlingspunda hafi gufað upp frá því á föstudag vegna lækkanna á hlutabréfamörkuðum um allan heim, að því er fram kemur í frétt The Independent.

Branson hefur hvatt bresk stjórnvöld til þess að íhuga að boða til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Hann segir að stórslys sé yfirvofandi. Þeir sem börðust fyrir útgöngu Breta hafi beinlínis logið að fólki í kosningabaráttunni og sagt að hægt væri að auka útgjöld til heilbrigðisþjónustu og draga úr straumi innflytjenda til landsins, segðu Bretar skilið við sambandið. Ekkert væri hins vegar fjær sanni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK