Hver ber ábyrgð á Pokémon Go?

John Hanke, forstjóri og stofnandi Niantic.
John Hanke, forstjóri og stofnandi Niantic.

Þrátt fyrir að velgengni Pokémon-leiksins megi rekja tuttugu ár aftur í tímann eru nokkrir einstaklingar sem bera sérstaka ábyrgð á nýjasta æðinu sem skekur heimsbyggðina um þessar mundir. 

Óháð áliti fólks á snjallsímaleiknum sem tröllríður öllu hlýtur að mega sammælast um að þróunin sé áhugaverð. Hvernig getur eitthvað orðið svona vinsælt á örfáum dögum? Til að mynda mátti telja 15,3 milljónir tísta á Twitter um Pokémon Go á fyrstu vikunni eftir útgáfu. Til samanburðar voru 11,7 milljónir tísta um Brexit á sama tímabili eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna og 7,5 milljónir tísta voru um EM á fyrstu viku mótsins. Nokkuð ljóst er að heimurinn er að fylgjast með leiknum.

Pokémon-æði gengur yfir heiminn.
Pokémon-æði gengur yfir heiminn. AFP

Kveiktu í köldum glæðum

Sérfræðingar segja að velgengnin hefði aldrei verið með þessum hætti hefði sami grunnleikur byggt á nýrri formúlu og öðrum persónum. Pokémon-fígúrur sem flestir þekkja og eiga stóran sess í hjarta heillar kynslóðar gerðu gæfumuninn. Því má segja að velgengnina megi rekja 20 ár aftur í tímann og þá fyrst og fremst til Satoshi Tajiri, sem er hinn raunverulegi skapari Pokémon.

Pokémon-æðið er þó löngu gengið yfir og voru aðrir sem kveiktu bál í köldum glæðum: Fyrirtækið Niantic.

Skapaði Google Earth

Maður að nafni John Hanke stofnaði Niantic árið 2010 og eru höfuðstöðvar þess í San Fransico í Kaliforníu. Fyrirtækið var upphaflega eining innan Google þar sem Hanke starfaði. Hann hóf störf hjá tæknirisanum árið 2004 þegar hann fylgdi með í kaupum Google á fyrirtækinu Keyhole Inc. Hanke stofnaði Keyhole árið 2001 en fyrirtækið sérhæfði sig í landakortum á tölvutæku formi. Þessi landakort urðu að Google Earth árið 2005.

Tæknin sem Hanke skapaði er grunnurinn að Google Maps sem flestir líklega þekkja og eru kaup Google á Keyhole talin ein skynsamlegasta yfirtaka fyrirtækisins í gegnum árin.

Þegar Hanke síðan stofnaði Niantic var markmiðið að búa til tölvuleiki sem byggja á þessari tækni.

Fyrsta afurðin nefnist Field Trip og er app sem leiðbeinir notanda á áhugaverða staði í nærumhverfinu.

Önnur afurðin nefnist Ingress og kom út í nóvember 2012 en það er snjallsímaleikur sem byggir á staðsetningu notandans. Markmiðið er að safna stigum sem falin eru við kennileiti í umhverfinu. Þetta kann réttilega að hljóma kunnuglega þar sem leikurinn er í raun grunnurinn að Pokémon Go. 

Pokémon Go byggir í rauninni á Google Earth sem Hanke …
Pokémon Go byggir í rauninni á Google Earth sem Hanke skapaði einnig. AFP

Byggir á fjögurra ára vinnu

Niantic var leyst undan Google í ágúst í fyrra þegar endurskipulagning fyrirtækisins stóð yfir og Google var fært undir nýja móðurfélagið Alphabet. Í kjölfarið öðlaðist Niantic frjálsræði til að leita á önnur mið eftir nýjum samstarfsaðilum. Fyrsti samstarfssamningurinn var gerður við Pokémon Company og Nintendo. Þetta samkomulag hefur síðan komið öllum hlutaðeigandi mjög vel þar sem virði Nitendo hefur til að mynda rúmlega tvöfaldast frá því að leikurinn var gefinn út. 

Pokémon leikurinn er í raun einfaldari útgáfa af Ingress og að sjálfsögðu með fígúrum sem allir þekkja í aðalhlutverki. Þróunarvinnan sem hefur staðið yfir í fjögur ár frá útgáfu Ingress er hins vegar grunnurinn. Þann grunn má síðan rekja aftur til Google Earth.

Úr leiknum Ingress sem Pokémon byggir á.
Úr leiknum Ingress sem Pokémon byggir á.

Þessi þróun ræður til dæmis staðsetningu margra Pokémon-fígúra. Í Ingress eru stig falin á stöðum sem höfðu verið sérstaklega merktir sem áhugaverð kennileiti á Google Earth. Þetta var byrjunin og voru notendur síðan beðnir um að koma með ábendingar um fleiri áhugaverða staði. Um fimmtán milljónir ábendinga bárust og voru fimm milljónir þeirra notaðar. Þetta var síðan notað sem grunnur í Pokémon Go. Vinsælustu staðirnir í Ingress eru Pokemón æfingarsvæði.

Eftir velgengnina er ljóst að framtíð Niantic er galopin og hafa starfsmenn ýmsar áhugaverðar hugmyndir. Í samtali við Gamespot segist Archit Bhargava, sem hefur starfað hjá fyrirtækinu frá 2011, hafa mikinn áhuga á því að breyta hefðbundnum borðspilum í snjallsímaleiki sem koma fólki út úr húsi. Vísar hann meðal annars til borðspilsins Risk og segir drauminn vera að búa til leik er byggir á Game of Thrones, þar sem veröld bókanna og þáttaraðanna yrði lögð yfir raunheiminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK