Domino's var engin mjólkurkýr

Árið 2011 hélt Birgir Þór Bieltvedt innreið sína á íslenskan …
Árið 2011 hélt Birgir Þór Bieltvedt innreið sína á íslenskan veitingahúsamarkað þegar hann kom að kaupum að Domino’s á Íslandi í þriðja sinn. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er misskilningur ef fólk heldur að Domino's á Íslandi hafi verið einhver mjólkurkýr árið 2011. Fyrirtækið var á hraðri niðurleið á þeim tíma og við þurftum að endurskipuleggja allt í rekstrinum,“ segir Birgir Þór Bieltvedt í viðtali í ViðskiptaMogganum í dag.

Birgir festi nýlega kaup á Café París en fyrir á hann ásamt eiginkonu sinni, Eygló Björk Kjartansdóttur, helmingshlut í Gló og meirihlutann í vinsælum stöðum á borð við Snaps, Jómfrúnni og Joe & the Juice. Hann hefur sömuleiðis aðkomu að Brauð & Co og áður en langt um líður mun hann opna Hard Rock í Lækjargötu.

„Við réðum margt nýtt fólk og fyrrverandi starfsmenn, jukum gæði hráefnisins til mikilla muna og fengum Fíton, sem nú er Pipar, í lið með okkur. Það varð til þess að í þrjú ár, frá 2013 til 2015, fengum við verðlaun frá Domino's á heimsvísu fyrir framúrskarandi árangur. Veltan hjá okkur er mjög mikil en það má heldur ekki gleyma því að við höfum komið með margar mikilvægar nýjungar sem síðan hafa verið notaðar annars staðar. Þannig byrjuðum við með megavikuna og við vorum þeir fyrstu sem lögðum áherslu á að fólk sækti matinn sjálft í stað þess að byggja þetta á heimsendingu,“ segir Birgir um Domino's.

Margfaldað fjárfestinguna

Líkt og áður hefur komið fram, keypti Domino's í Bretlandi fyrirtækið af Birgi og meðfjárfestum hans í júní síðastliðnum og hafði hann þá á fáum árum margfaldað fjárfestingu sína. Birgir segist ekki þekkja önnur dæmi þess að erlendir aðilar fjárfesti í íslenskum veitingageira með jafnumfangsmiklum hætti. Í sölunni felst að á næstu sex árum mun Domino's í Bretlandi eignast allt fyrirtækið en fram að þeim tíma verður Birgir viðriðinn fyrirtækið og mun hafa töluverða hagsmuni af því að það vaxi enn frekar.

„Við erum einnig að reyna að fá finnska markaðinn og Eystrasaltsríkin og ég vona að ég nái að loka því á næstu mánuðum. Á næstu misserum ætlum við að fjölga stöðunum hér á landi úr 20 í 30. Þá verðum við með einn stað á hverja tíu þúsund íbúa en það er tífalt það sem gengur og gerist annars staðar. Í Noregi munum við enda með 12 til 13 staði í lok árs og fyrstu staðirnir munu einnig opna í lok sumars í Svíþjóð. Markmiðið er að vera komnir með um 100 staði innan þriggja ára á Íslandi og í Skandinavíu,“ segir Birgir.

Ítarlegra viðtal má finna í ViðskiptaMogganum í dag.

Frétt mbl.is: Lykillinn er reksturinn

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK