Þrettán öflugir námsmenn fengu styrk

Þrettán öflugir námsmenn fengu styrk frá Íslandsbanka.
Þrettán öflugir námsmenn fengu styrk frá Íslandsbanka.

Þrettán námsmenn hlutu á dögunum námsstyrki Íslandsbanka. Námsmennirnir eru úr framhaldsskólum og háskólum og voru valdir úr hópi 300 umsækjenda.

Afhendingin fór fram í höfuðstöðvum bankans á Kirkjusandi. Bankinn veitir árlega styrki til framúrskarandi nemenda.

Styrkirnir voru veittir í þremur flokkum:

  • 3 styrkir til framhaldsskólanáms 100.000 krónur hver
  • 5 styrkir til háskólanáms (BA/BS/B.Ed) 300.000 krónur hver
  • 5 styrkir til framhaldsnáms á háskólastigi 500.000 krónur hver

Dómnefndina skipuðu Ari Kristinn Jónsson rektor Háskólans í Reykjavík, Gylfi Dalmann Aðalsteinsson dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, Hafsteinn Bragason mannauðsstjóri Íslandsbanka og Hólmfríður Einarsdóttir markaðs- og þjónustustjóri Íslandsbanka.

Þau sem hlutu styrki Íslandsbanka eru:

Sólveig Hrönn Hilmarsdóttir, nemandi í Menntaskólanum í Reykjavík. Sólveig Hrönn leggur stund á fornmál og stefnir á nám í fornfræði á erlendri grundu að loknu stúdentsprófi.

Eva Kolbrún Kolbeins, nemandi í Kvennaskólanum í Reykjavík. Eva Kolbrún æfir með meistaraflokki Gróttu í handbolta, er mjög virk í nemendafélögum og hefur spilað með Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Bjarni Ármann Atlason, nemandi í Verzlunarskóla Íslands. Bjarni Ármann hefur hlotið viðurkenningar fyrir námsárangur frá Vigdísi Finnbogadóttur, sendiherra Kanada og sendiherra Danmerkur. Þá hefur hann unnið nokkra Íslandsmeistaratitla í frjálsum íþróttum.

Andri Már Þórhallsson, nemandi í Háskólanum í Reykjavík. Andri Már hefur hlotið nýnemastyrk og verið á forsetalista HR. Samhliða námi hefur Andri Már meðal annars búið til vinsælan tölvuleik sem er seldur í gegnum Apple app store.

Heiður Þórisdóttir, nemandi í Háskóla Íslands. Heiður hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir námsárangur og stefnir á frama í umhverfis- og orkumálum.

Birkir Már Þrastarson, nemandi í Beihang University. Eftir frekari sérhæfingu í Bandaríkjunum stefnir Birkir Már á að stofna eigið fyrirtæki sem þróar gerviútlimi.

Sigurgeir Ólafsson, nemandi í Háskóla Íslands. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Sigurgeir lokið bakkalársprófi í lífefna- og sameindalíffræði. Hann er við það að ljúka meistaragráðu í líf- og læknavísindum og mun næsta haust halda áfram með bakkalárpróf í tölvunarfræði.

Sólveig Ásta Einarsdóttir, nemandi í Háskóla Íslands. Sólveig Ásta hefur keppt með ólympíuliði Íslands í eðlisfræði og stundar sumarnám við einn virtasta háskóla heims, California Institute of Technology.

Börkur Smári Kristinsson, nemandi í ETH Zurich. Börkur hefur unnið nokkra Íslandsmeistaratitla í frjálsum íþróttum, lokið burtfararprófi í klassískum gítarleik og stefnir nú á frama í umhverfismálum og sjálfbærum lifnaðarháttum.

Agnes Jóhannsdóttir, nemandi í University College London. Agnes vinnur sem kennari við Cambridge Coding Academy samhliða námi sínu. Hún er meðal annars virkur meðlimur í Félagi ungra athafnakvenna og hefur unnið sem sjálfboðaliði á Indlandi og í Kenía.

Daníel Kristjánsson, nemandi í ESADE. Daníel útskrifaðist fyrst sem semi-dúx úr Verslunarskólanum og síðar með hæstu einkunn sem gefin hefur verið útskriftarnema í viðskiptafræði frá Viðskiptafræðideild HÍ.

Hulda Þorsteinsdóttir, nemandi í Háskóla Íslands. Hulda er margfaldur Íslands- og bikarmeistari í stangarstökki og hefur náð ótrúlegum árangri þrátt fyrir þrálát meiðsli og stefnir nú á Ólympíuleikana.

Árny Arnarsdóttir, nemandi í Utrecht University. Árny hefur áður fengið hvatningarverðlaun fyrir ungar konur sem hafa unnið að samfélagsmálum og starfað sem sjálfboðaliði á Indlandi. Nú sérhæfir hún sig í sjálfbærri umbreytingu samfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK