Heildarhagnaður Nýherja 111 milljónir

Nýherji hagnaðist um 111 milljónir króna á fyrri árshelmingi 2016 en tekjur fyrirtækisins jukust um 7,2% frá fyrra ári og námu 7.126 milljónum króna. Framlegðin nam 1.816 milljónum króna og EBITDA 439 milljónum króna.

Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins var 30,8% í lok annars ársfjórðungs en var 29,3% í lok síðasta ársfjórðungs.

„Afkoma Nýherjasamstæðunnar batnaði á öðrum ársfjórðungi miðað við fyrsta fjórðung þessa árs, en fyrri helmingur ársins markast af kostnaðarhækkunum vegna kjarasamninga. Heildarhagnaður samstæðunnar er 73 mkr á öðrum ársfjórðungi og 111 mkr fyrstu 6 mánuði ársins, sem er sambærilegt við fyrri árshelming 2015,“ er haft eftir Finni Oddssyni, forstjóra Nýherja, í tilkynningu.

„Rekstur samstæðunnar gekk almennt ágætlega, sérstaklega hefur verið góður gangur í hugbúnaðartengdri starfsemi, bæði hjá Nýherja og dótturfélögum. Tekjur Tempo jukust um tæplega 40% (í USD) og viðskiptavinum fjölgar áfram hratt.  Til að styðja við þessa þróun höfum við lagt aukna áherslu á erlenda starfsemi Tempo með fjölgun starfsfólks í Montréal og opnun starfsstöðvar í San Francisco. Hjá TM Software hækkuðu tekjur um fjórðung, en mjög góð eftirspurn er eftir lausnum á öllum sérsviðum félagsins. Tekjur Applicon í Svíþjóð hafa að sama skapi aukist, afkoma er góð og unnið að stórum og spennandi verkefnum, sérstaklega á sviði bankalausna.  

Góður vöxtur hefur verið í sölu hugbúnaðarlausna hjá Nýherja, móðurfélagi, en aukin áhersla á þann þátt starfsemi okkar skilað því m.a. að Nýherji var valinn samstarfsaðili ársins af Microsoft í fyrsta skipti. Sala á tölvum og tengdum búnaði gekk vel, sérstaklega í hljóð- og myndlausnum og nýjum hýsingarlausnum, sem Nýherji býður í samstarfi við Verne, hefur verið afar vel tekið. 

Yfir það heila erum við nokkuð sátt við niðurstöðuna eftir ögrandi fyrsta fjórðung ársins. Verkefnastaða er góð, afar áhugaverð tækifæri í starfsemi dótturfélaga erlendis og horfur í rekstri samstæðunnar því ágætar. Kostnaðarhækkanir vegna kjarasamninga í upphafi árs verða þó áfram eitt stærsta viðfangsefnið á móðurfélagi Nýherja og verður áfram horft til hagræðingar eins og þörf krefur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK